Lítillega dregið úr virkninni

Gossvæðið í Holurhauni í morgun.
Gossvæðið í Holurhauni í morgun. Ljósmynd/Erla Vinsy Daðadóttir

Eldgosið heldur áfram þó það virðist hafa dregið lítillega úr virkninni frá því sem var í gær. GPS-tæki í nágrenni innskotsins sýnir mun minni færslur en fyrir gosið. Það hefur gerst á sama tíma og skjálftavirknin hefur minnkað. Þetta gefur til kynna að kvikuflæðið inn í ganginn og kvikuflæði inn í gosinu eru gróft séð í jafnvæði eins og er.

Þetta kom fram á fundi vísindamannaráðs Almannavarna en hann sitja vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans ásamt fulltrúum frá Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra

Á fundinum kom eftirfarandi fram:

Skjálftavirkni er mun minni undanfarnar 24 klst, eða um helmingur þess sem hún hefur verið undanfarna daga. Frá miðnætti hafa mælst um 300 skjálftar. Á sama tíma í gær, 1 september, greindust 500 skjálftar á mælum. Skjálftarnir síðan á miðnætti voru við gosstöðvarnar, sá stærsti 3 að stærð. Nokkrir minni voru í ösku Bárðarbungu.

GPS-tæki í nágrenni innskotsins sýnir mun minni færslur en fyrir gosið. Það hefur gerst á sama tíma og skjálftavirknin hefur minnkað. Þetta gefur til kynna að kvikuflæðið inn í ganginn og kvikuflæði inn í gosinu eru gróft séð í jafnvæði eins og er.

Engin aska kemur frá gosinu.

Hvítur gosmökkur rís um 4,5 km frá gosstöðvunum. Vindáttin stýrir áttinni sem mökkurinn fer. Í gær náði hann um 60 km til norð-norðausturs.

Í samanburði við gærdaginn mælist nú meira rúmmál brennisteinsdíoxíðs  undan vindi frá eldstöðinni.

Sandstormur á gossvæðinu kann að hafa blandað örfínum ögnum upp í gosmökkinn, og kann að útskýra ljósbrúna móðu yfir Egilsstöðum í morgun.

Gossprungan er um 1.5 km á lengd um 4.5 km frá jökulrönd Dyngjujökuls.

Klukkan 14:00 í gær var flatarmál hraunsins um 4.2 km2, klukkan 8:00 í morgun hafði rönd þess teygt sig 1.5 km til aust-suð-austurs.

Eldgosið heldur áfram þó það virðist hafa dregið lítillega úr virkninni frá því sem var í gær.

Ekki er hægt að segja til um það á þessari stundu hvert framhaldið verður. Fjórir möguleikar eru taldir líklegastir:

  • Að innflæði kviku stöðvist og skjálftahrinan fjari út og ekki komi til annars eldgoss.
  • Gangurinn nái til yfirborðs og eldgos hefjist á ný norðan Dyngjujökuls, jafnvel á nýrri sprungu. Ekki er hægt að útiloka gos með hraunflæði og/eða sprengivirkni.
  • Gangurinn nái til yfirborðs og eldgos hefjist á ný en verulegur hluti eða öll sprungan verði undir Dyngjujökli. Gosið myndi leiða til jökulhlaups í Jökulsá á Fjöllum og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli.
  • Gos í Bárðarbungu. Gosið gæti leitt til jökulhlaups og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli. Mestar líkur eru á að hlaup kæmi niður Jökulsá á Fjöllum, en ekki er hægt að útiloka aðrar hlaupaleiðir: Skjálfandafljót, Kaldakvísl, Skaftárkatla og Grímsvötn.

Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir.

Frá Veðurstofu Íslands: Litakóði fyrir flug er appelsínugulur fyrir Bárðarbungu og gulur fyrir Öskju.

Gossvæðið í Holurhauni í morgun.
Gossvæðið í Holurhauni í morgun. Ljósmynd/Erla Vinsy Daðadóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert