Minnst ánægja með veður á höfuðborgarsvæðinu

Rigning í Reykjavík.
Rigning í Reykjavík. mbl.is/Ómar

Nokkur munur var á ánægju Íslendinga með veðrið á Íslandi í sumar eftir búsetu. Þeir sem voru búsettir á Norðaustur- og Austurlandi voru ánægðastir með veðrið í sumar en þeir sem bjuggu í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur voru síst ánægðir með veðrið í sumar.

Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem MMR gerði á tímabilinu 25. til 29. ágúst. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 92,4% þeirra sem búsett voru á Norðaustur- og Austurlandi vera ánægð með veðrið í sumar, 45,5% þeirra sem búsett voru á Norðvestur- og Vesturlandi, 44,4% þeirra sem búsett voru á Suðurlandi, 37,0% þeirra sem búsett voru í Reykjavík og 33,7% þeirra sem búsett voru í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur sögðust vera ánægð með veðrið í sumar.

Heilt yfir lagðist veðrið í sumar sambærilega í landsmenn og veður síðasta sumars (mælt í ágúst 2013). Sumrin 2014 og 2013 lögðust nokkuð verr í landsmenn heldur en sumrin 2010, 2011 og 2012. Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 45,4% vera frekar eða mjög ánægð með veðrið í á Íslandi í sumar, borið saman við 44,9% sumarið 2013 og 96,3% sumarið 2012 (mælt í september).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert