Neyðin kennir Borgnesingi að skapa

Sigursteinn SIgurðarson.
Sigursteinn SIgurðarson. Árni Sæberg

Sigursteini Sigurðssyni leist ekki á blikuna þegar hann kom úr dýru arkitektúrnámi í Glasgow í Skotlandi skömmu eftir efnahagshrun. Flestar dyr virtust lokaðar og fjárhagurinn leyfði ekki annað en ódýra íbúð í Borgarnesi. Í fyrstu hóf hann að blogga um skipulagsmál í Borgarnesi þannig að eftir var tekið. Fljótlega fór hann að fá verkefni sem snerust m.a. um að skipuleggja reiti í bænum og nú hefur hann vart undan verkefnum.

Í ljósi þess áttaði hann sig á því að hinn skapandi geiri snýst um sköpun, óháð staðsetningu, og er hann nú ein af vítamínsprautunum á bak við Frumkvöðlasetur Vesturlands sem sett var á laggirnar í sumar í Borgarnesi.

Þá er hann jafnframt formaður Vitbrigða Vesturlands sem er aðili að frumkvöðlasetrinu ásamt Símenntun á Vesturlandi, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Verkís, KPMG, Kaupfélagi Borgfirðinga, Arion banka og báðum háskólunum í héraðinu. Opið er fyrir styrkumsóknir og að sögn Sigursteins hafa fjölmargar umsóknir borist. Einn umsækjandi hefur þegar fengið styrk og er það vöruhönnuður í Listaháskóla Íslands sem er að þróa tískulegar mengunarvarnargrímur fyrir Asíumarkað.

„Umsóknirnar eru fyrir alla en við höfum aðallega fengið umsóknir frá fólki sem er frá þessu svæði. Þar á meðal eru margir brottfluttir sem hafa áhuga á því að koma heim,“ segir Sigursteinn.

Sjálfur var hann í þeim sporum eftir langt háskólanám að hafa þann valkost einan að flytja heim í Borgarnes ásamt konu sinni og barni. „Þegar ég kom heim var einungis svartnættið framundan, þannig að maður sat uppi með mjög dýrt háskólanám en ekkert að gera. En svo kom í ljós að það var fullt að gera fyrir arkitekta hér,“ segir Sigursteinn. Fyrir bæjarráði liggur nú tillaga hans að skipulagi á svæðinu umhverfis Landnámssetrið.

Sigursteinn gegnir formennsku í Vitbrigðum Vesturlands og segir félagið vera fyrir alla. „Okkar félagsskapur snýst um þessa grasrót og nýliða með nýsköpunarhugmyndir. Þetta er nú fyrir ungt skapandi fólk, en svo er aldurinn afstæður og fólk hátt í fimmtugt komið í félagsskapinn. Allir eru velkomnir,“ segir Sigursteinn. Hann segist finna fyrir miklum samlegðaráhrifum og eftir komu hans inn í samfélagið hafi fleiri stigið fram með hugmyndir sínar sem þeir vilja koma á framfæri.

Ætlaði aldrei að flytja aftur

Þegar Borgarnes varð fyrir valinu sem áfangastaður eftir námið viðurkennir Sigursteinn að margir hafi hváð. „En þegar maður er kominn í þessar aðstæður, í 1.800 manna bæjarfélag, þá reynir á mann og maður hugsar aldrei eins mikið út fyrir rammann og nákvæmlega í þessum aðstæðum. Ég er búinn að komast að því að það eru endalaus tækifæri hérna,“ segir Sigursteinn. „Ég vil samt taka það fram að ég ætlaði ekki fyrir mitt litla líf að flytja aftur hingað. Það var svolítið mikið stökk að fara úr menningarlífinu í Glasgow í Borgarnes þar sem ekki er mikið menningarlíf. En maður þarf bara að búa sér til menningarlíf sjálfur og viðtökurnar hafa verið flottar. Þótt einhverjir séu neikvæðir eru langflestir jákvæðir,“ segir Sigursteinn.

Engin framtíð í myndlist

Hann segir að í samfélaginu sé vaxandi áhugi á skapandi greinum. „Ég rifja það stundum upp með kennurum sem koma hérna í Hugheima (frumkvöðlasetrið) að þegar ég var ungur tók ég áhugasviðspróf og útkoman varð myndlistarmaður. Mér var tjáð að það væri engin framtíð í því og það var svolítið veganestið sem ég fékk þegar ég flutti í burtu,“ segir Sigursteinn. Hann segir að þetta hafi verið skilaboð samfélagsins og þeir sem hafi haft áhuga á myndlist eða tónlist þurftu að flytja burt en því vill Sigursteinn breyta.

„Ég finn það eftir að ég kom til baka að fleiri vilja gera það líka. Nú þegar er komið fólk hingað heim sem hefur áhuga á að starfa í skapandi geira,“ segir Sigursteinn.

Mikil gróska er á Landnámssetrinu í Borgarnesi.
Mikil gróska er á Landnámssetrinu í Borgarnesi. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert