Skjaldbökur lokkuðu börn í holræsi

Þeir eru vígalegir í nýju myndinni, Rafael, Leonardo, Donatello og …
Þeir eru vígalegir í nýju myndinni, Rafael, Leonardo, Donatello og Michaelangelo.

„Lögreglan sótti unga drengi í skjaldbökuleik uppúr tveimur holræsum í Reykjavík í fyrrakvöld.“ Þetta kom fram í frétt Morgunblaðsins í júní árið 1991. Slíkt æði greip um sig er skjaldbökurnar fjórar og rottan, lærimeistari þeirra, birtust á hvíta tjaldinu að vara þurfti foreldra við holræsaferðum barna.

Nú er enn ein myndin um skjaldbökurnar Rafael, Leonardo, Donatello og Michaelangelo komin í kvikmyndahús hér á landi. Því er tímabært að rifja upp viðbrögð íslenskra barna er grænu fjórmenningarnir, sem elska pizzur og berjast gegn hinu illa með ninja-töktum, birtust þeim í kvikmynd árið 1991.

„Káabunga,“ sagði hinn sex ára gamli Baldvin Dungal og tók nokkur ninjahopp yfir grasflötina í viðtali við Morgunblaðið í júní árið 1991. Þar sagði hann af einlægni frá ástríðu sinni fyrir skjaldbökunum. Baldvin var aðeins eitt fjölmargra íslenskra barna sem tók skjaldbökurnar fjórar sér til fyrirmyndar.

Lærifaðir skjaldbakanna, rottan Reginvaldur, nefndi þær í höfuð helstu listmálara sögunnar. Skjaldbökurnar voru unglingar og nokkuð hortugar en að sama skapi viðkvæmar, líkt og jafnaldrar þeirra úr mannheimum. Þær höfðu hver sína persónueiginleika og höfðuðu því misjafnlega til aðdáenda myndanna. Baldvin líkir eftir Leonardo í viðtalinu, sveiflar fimlega plastsverði í kringum sig en í raun er það Michaelangelo sem hann heldur mest upp á af því hann er „sjúkastur í pizzu“.

Börn söfnuðu margvíslegu Skjaldböku-dóti á þessu tímabili og víst að enn leynast rykfallnar skjaldbökur í geymslum víða um land.

En þau léku sér líka í skjaldböku-leikjum í skólanum og á leikskólanum. 

Skóflur fjarlægðar á leikskólum

Á leikskólum varð starfsfólkið óneitanlega vart við þetta æði við upphaf tíunda áratugarins. „Margir krakkar eru uppfullir af þessu,“ sagði Ásdís Gunnarsdóttir, fóstra á Grænuborg, í viðtali við Morgunblaðið í júní árið 1991. „Þau þurfa að fá útrás og það er af hinu góða. Þau setja á svið bardaga milli þeirra góðu og vondu og nota það sem tiltækt er, sápukúlubox og litlar skóflur.“

Meðal þeirra úrræða sem börnin gripu til á þessum tíma til að vígbúast var að naga brauðsneiðar til eins og vopn skjaldbakanna. „Þetta er allt í góðu og börnin eru vinir á eftir. Hér eru leikfangavopn bönnuð en við vorum með langar skóflur sem þau brugðu fyrir sig í hita leiksins svo við tókum þær úr umferð. Börnin láta slíkt ekki á sig fá heldur hugsa upp eitthvað annað. En það er auðvitað hræðilegt þegar þau finna upp á því að fara ofan í holræsin.“

Og það var einmitt skuggahliðin á skjaldbökuæðinu. Lögreglan í Reykjavík þurfti að minnsta kosti í tvígang að fara eftir ungum ævintýramönnum ofan í holræsi borgarinnar. Þar ætluðu þeir sjálfsagt að ráða niðurlögum „vondu kallanna“ eins og fyrirmyndir þeirra fjórar. Skýringin á uppátækinu var sú að skjaldbökurnar bjuggu í holræsum New York. Þar þjálfaði lærimeistarinn Reginvaldur þær svo þær urðu miklir ninja-snillingar.

„Holræsin eru stórhættuleg,“ sagði Sigurður Skarphéðinsson, aðstoðargatnamálastjóri, í samtali við Morgunblaðið í kjölfar frétta um holræsisferðir barna. „Það verður að gera allt sem í mannlegu valdi stendur til að stöðva þetta.“

Sigurður benti á að holræsi á Íslandi væru yfirleitt þröng og að þar væri mikið frárennsli. 

Ofbeldisfullar og æsa börnin

Þá voru ekki allir foreldrar hrifnir af skjaldbökunum. „Mér finnst mikið ofbeldi fylgja skjaldbökunum og þær eru mun minna þroskandi en til dæmis playmobil-leikföng,“ sagði móðir fjögurra ára aðdáanda skjaldbakanna í Morgunblaðinu.

Þá voru skjaldbökuleikföng bönnuð á sumum leikskólum. „Við erum ekki með skjaldbökur og við viljum ekki að krakkarnir komi með þær að heiman á dótadögum því þær teljast til ofbeldisleikfanga sem eru bönnuð hér,“ sagði Anna Helga Hilmarsdóttir, starfsmaður á leikskólanum Efrihlíð í Morgunblaðinu í júní 1991. Hún bætti því við að börnin væru oft æst er þau léku sér með skjaldbökurnar og oftar en ekki gæfu þau frá sér alls kyns hljóð án þess að mynda orð. Þetta sagði Anna Helga að væru áhrif frá sjónvarpsglápi. Með því að hlusta á börnin væri auðvelt að þekkja þau úr sem horfðu mikið á sjónvarp.

Það er einmitt það.

Kynnti kærustuna fyrir æskuvinunum

Nú skal ósagt látið hvort að einhver börn hafi orðið fyrir miklum skaða vegna grænu ninja-skjaldbakanna á sínum tíma. En í það minnsta þekki ég einn ungan mann sem gat ekki beðið eftir að endurnýja kynnin við skjaldbökurnar sem voru hans eftirlætis hetjur á árum áður.

„Mér fannst nýja myndin alveg geðveik,“ segir Arnar Logi Ólafsson, sonur greinahöfundar, sem valdi sér skjaldbökumyndirnar á vídeóleigum í nær samfellt tvö ár á sínum tíma. „Það var stórkostlegt að endurnýja kynnin við skjaldbökurnar. Ég tók kærustuna mína, Elisaabetu Björk Guðnadóttur, með til að kynna hana fyrir þessum æskuvinum mínum, þeim Rafael, Leonardo, Donatello og Michaelangelo.“

Honum fannst nýja myndin frábær í alla staði og nýju ævintýrin ólík þeim sem hann man eftir úr fyrri myndunum.

„Það tók svolítið á að sjá þessa gleymdu vini sem ég var svo mikið með á yngri árum að þeir virtust raunverulegir.“ Arnar Logi játar að það hafi verið gott að sjá þá aftur og að þeir hefðu engu gleymt í baráttunni við vondu kallana. 

Nýja kvikmyndin um skjaldbökurnar eru bönnuð innan 10 ára í íslenskum kvikmyndahúsum. Hér að neðan má sjá sýnishorn úr myndinni.

Fórst þú ofan í holræsi í skjaldbökuleik á 10. áratugnum, nú eða barnið þitt eða einhver sem þú þekkir? Sendu mbl.is línu, netfrett@mbl.is. 

Holræsin eru stórhættuleg, sagði lögreglan eftir að hafa farið þangað …
Holræsin eru stórhættuleg, sagði lögreglan eftir að hafa farið þangað á eftir ungum drengjum í júní árið 1991. Morgunblaðið 13. júní 1991
Baldvin Dungal safnaði skjaldbökudóti við upphaf tíunda áratugarins, hér í …
Baldvin Dungal safnaði skjaldbökudóti við upphaf tíunda áratugarins, hér í viðtali við Morgunblaðið árið 1991. mbl.is
Skjaldbökurnar í myndinni árið 1990. Þá voru þeir nokkuð sakleysislegri.
Skjaldbökurnar í myndinni árið 1990. Þá voru þeir nokkuð sakleysislegri.
Arnar Logi Ólafsson og Elísaabet Björk Guðnadóttir rifjuðu upp kynnin …
Arnar Logi Ólafsson og Elísaabet Björk Guðnadóttir rifjuðu upp kynnin af skjaldbökunum og fóru á nýju myndina. Ljósmynd/Þorgeir Ólafsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert