Verður hraunið nefnt Litla-Hraun?

Eldgosið í Holuhrauni
Eldgosið í Holuhrauni mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ýmsar tillögur hafa borið á góma síðustu daga varðandi nafngift hraunsins sem nú vellur upp um gossprungur í Holuhrauni. Eins og kom fram í viðtali við Skúla Víkingsson, jarðfræðing hjá Íslenskum orkurannsóknum, á mbl.is í gær, þá eru einkar fá örnefni á svæðinu og því enginn hægðarleikur að nefna fyrirbærið. Sjálfur stakk Skúli upp á Flæðahrauni og hafa þó nokkrir tekið undir það.

Á meðal annarra heita sem hlotið hafa góðan hljómgrunn má nefna Enginn-má-taka-myndir-nema-fjölmiðlar-hraun, en þar er eflaust á ferð ósáttur áhugaljósmyndari. Aðrir vilja ólmir að hraunið verði nefnt í höfuðið á Ómari Ragnarssyni, Ómarshraun. Einnig var stungið upp á Holuhraunshraunshraunshraun en gaman væri að sjá erlenda ferðamenn reka í rogastans við slíkt örnefni.

Nefnt eftir fangelsi

Sniðugheitin náðu þó eflaust hámarki þegar stungið var upp á því að nefna hraunið eftir þekktasta fangelsi Íslendinga. Þannig er mál með vexti að hraunið rennur um hið víðáttumikla Holuhraun og verður hið nýrunna hraun að teljast fremur lítið í samanburði við það. Örnefnið Litla-Hraun hefur því hlotið náð fyrir augum margra.

Meðal annarra uppástungna má nefna Bárðarhraun, Dáðahraun, Drekaflæður, Drekahraun, Dyngjuhraun, Gangahraun, Gjótuhraun, Gönguhraun, Gönuhraun, Skjálftahraun, Skelfihraun, Skorpuhraun, Spennuhraun, Þrenningarhraun og Þorbjargarhraun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert