Vilborg og Atli á leið til Tíbet

Vilborg Arna og félagi hennar, Atli Pálsson ætla að klífa …
Vilborg Arna og félagi hennar, Atli Pálsson ætla að klífa Cho Oyu án aðstoðar og súrefnis. mbl.is/Árni Sæberg

Fjallagarparnir Vilborg Arna Gissurardóttir og Atli Pálsson eru lögð af stað að landamærum Nepals og Tíbets á leið sinni að Cho Oyu í Tíbet sem þau munu klífa á næstu vikum. Þau lentu í Katmandu  í Nepal í fyrradag. 

„Það er skemmst frá því að segja að við höfum verið eins og þeytispjald um Thamel-hverfið síðan að klára nokkur atriði. Það var nefnilega ákveðið að fara einum degi fyrr af stað og því þarf að hafa hraðar hendur,“ segir Vilborg í færslu á heimasíðu sinni

Vegna mikilla rigninga að undanförnu eru vegirnir ýmist í sundur eða torfarnir og því er óljóst hversu langt félagarnir komast. 

„Það er svo margt sem mig langar að segja og deila með ykkur en það eru einungis þrjár klukkustundir í brottför og ég á eftir að leggja mig aðeins,“ segir Vilborg. 

Hún segir þau Atla vel stemmd og þau hlakki til að takast á við verkefnið. „Eitthvað verður minna um fréttaflutning en áður þar sem við höfum ekki aðgang að neti og auk þess eru hinar ýmsu síður s.s. Facebook, Gmail, Google og fleira hreinlega bannaðar í Tibet en við munum samt reyna okkar besta.“

Hér má sjá þau Atla og Vilborgu Örnu rétt fyrir brottför í gær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert