Hraunið fer stækkandi

Rauðglóandi hraun rennur úr eldstöðinni í Holuhrauni.
Rauðglóandi hraun rennur úr eldstöðinni í Holuhrauni. mbl.is/Eggert

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir að staðan í norðanverðum Vatnajökli hafi lítið breyst frá því morgun. „Staðan er óbreytt, gosið er í gangi og hraunið fer stækkandi. Það eru líkur á að það sé meiri kvika að koma inn að neðan heldur en er að koma upp í gosinu. Það er visst áhyggjuefni.“

Eins og fram hefur komið, segir Jarðvís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands að ekki sé hægt að útiloka að gossprung­an við norðan­verðan Vatna­jök­ul geti lengst í báðar átt­ir. „Þegar það er komið gat á kerfið þá myndum við gjarnan sjá að það færi í gegnum það, en það virðist ekki alveg vera þannig ennþá,“ segir Magnús Tumi.

Aðspurður segir hann að um 50-60 milljónir rúmmetra af hrauni hafi komið upp úr gosinu. „Rennslið er svona 100-150 rúmmetrar á sekúndu. Það er svona rúmlega Sogið eða hálf Jökulsá á Fjöllum. Þetta er ekkert stórgos en þetta er verulegt gos,“ segir Magnús Tumi ennfremur.

TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, flaug yfir svæðið í dag. Magnús Tumi var ekki um borð en hann segir aðspurður engar nýjar upplýsingar hafi komið fram við eftirlitsflugið. 

Ekki er búið að staðsetja þann óróa sem hefur mælst á svæðinu í dag.

Samhæfingastöðin í Skógarhlíð var í sambandi við vísindamenn sem voru staddir við gosstöðvarnar í Holuhrauni. Mikill órói hefur mælst á gossvæðinu og fóru allir vísindamenn af svæðinu. Þeim tilmælum var einnig verið komið til fjölmiðlamanna að fara af svæðinu. SMS-skilaboð voru send á alla farsíma á svæðinu. Um varúðarráðstöfun að ræða.

Þær sviðsmyndir sem vísindamenn hafa sett fram eru enn í gildi. Fjórir möguleikar eru taldir líklegastir:

  • Að innflæði kviku stöðvist og skjálftahrinan fjari út og ekki komi til annars eldgoss.

  • Gangurinn nái til yfirborðs og eldgos hefjist á ný norðan Dyngjujökuls, jafnvel á nýrri sprungu. Ekki er hægt að útiloka gos með hraunflæði og/eða sprengivirkni.

  • Gangurinn nái til yfirborðs og eldgos hefjist á ný en verulegur hluti eða öll sprungan verði undir Dyngjujökli. Gosið myndi leiða til jökulhlaups í Jökulsá á Fjöllum og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli.

  • Gos í Bárðarbungu. Gosið gæti leitt til jökulhlaups og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli. Mestar líkur eru á að hlaup kæmi niður Jökulsá á Fjöllum, en ekki er hægt að útiloka aðrar hlaupaleiðir: Skjálfandafljót, Kaldakvísl, Skaftárkatla og Grímsvötn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert