Útkall á Kili

Kerlingarfjöll
Kerlingarfjöll mbl.is/Rax

Björgunarsveitir fundu skömmu fyrir klukkan eitt í nótt ferðakonu sem villst hafði af leið á Kili. Talsverður fjöldi björgunarsveitarmanna var kallaður út til leitar í gærkvöldi og eins var búið að fá heimild til þess að senda þyrlu af stað.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi hafði konan samband við neyðarlínuna um áttaleytið í gærkvöldi en hún var á göngu við Mæni, skammt frá Kerlingarfjöllum, og hafði villst af leið. 

Björgunarsveitir voru kallaðar út til að finna konuna og eftir miðnætti var ákveðið að senda þyrlu Landhelgisgæslunnar einnig af stað en hún var afturkölluð eftir að konan fannst. 

Farið var með konuna í skála í Kerlingarfjöllum og amaði ekkert að henni annað en að hún var orðin nokkuð köld.

Mænir er tindur í Miðfjöllum, 1.335 metrar að hæð. Hann er víðast kringdur hengiflugum og efst er hann úr hrafntinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert