Marktæk tengsl kannabisnotkunar við geðrof

Kannabisvindlingur.
Kannabisvindlingur. AFP

Flestir sem nota kannabis reglulega virðast stundum upplifa væg en skammvinn geðrofseinkenni sem eru skammtaháð og tengd styrk THC, virka efninu í kannabis. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á undanförnum árum benda til þess að styrkur THC fari víða vaxandi í þeim kannabisefnum sem eru á markaði og er það áhyggjuefni þar sem THC er það efni í kannabisafleiðum sem eykur mest hættu á geðrofi og þessi þróun gæti því orðið til þess að auka líkur á geðrofseinkennum hjá notendum.

Þetta kemur fram í fræðigrein Arnars Jans Jónssonar, Heru Birgisdóttur og Engilberts Sigurðssonar í Læknablaðinu. Í henni segir að um áratugaskeið hafi vísbendingar verið um að kannabis auki hættu á geðsjúkdómum, einkum geðrofi sem gæti með tímanum þróast í geðklofa hjá hluta slíkra einstaklinga.

Í þessari grein sinni tóku þau saman og fjalla um helstu niðurstöður rannsókna sem birst hafa um tengsl kannabisnotkunar, geðrofs og geðklofa.

Í niðurstöðukafla greinarinnar segir að flestar þær tilfellaviðmiðarannsóknir sem gerðar hafa verið sýni fram á marktæk tengsl kannabisnotkunar við geðrof og styðji þannig að kannabisnotkun geti leitt til geðrofs.

Höfundar segja að í ljósi þeirra gagna sem fram koma í greininni sé afar mikilvægt að auka þekkingu lækna, annarra heilbrigðisstétta og almennings á alvarlegum afleiðingum reglulegrar kannabisnotkunar hjá unglingum og ungum fullorðnum, og ekki síður á þeirri staðreynd að það er ekki hægt að spá fyrir um hverjir í hópi notenda kannabisefna veikist illa og til lengri tíma.

Fræðigreinin í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert