Finna talsverða fýlu af Jökulsá

Greinileg jöklafýla er af Jökulsá á Fjöllum og telur Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur að vatn sé farið að renna úr sigkötlum í Dyngjujökli í ána. Þetta sé hins vegar ekki mikið vatn því rennsli árinnar hefur ekkert aukist að heitið getur.

Venjulega er engin jöklafýla af Jökulsá á Fjöllum, en Ármann segir að í morgun hafi verið greinileg fýla af ánni. Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, fann einnig greinilega fýlu af ánni í dag. Það sé hins vegar ekki hægt að sjá neina breytingu á rennsli árinnar.

Pálmi Erlendsson, jarðfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að aukin rafleiðni hafi komið fram á sjálfvirkum mælum í Jökulsá á Fjöllum. Rennsli sé hins vegar óbreytt og hitastig vatnsins sömuleiðis. Hann segir menn ekki búna að átta sig almennilega á því hvers vegna aukin leiðni mælist í ánni. Ekki sé hægt að útiloka að eldur hafi komist í snertingu við jökulinn.

Hraunið á stutt eftir í ána

Þorvaldur segir að litlar breytingar hafi orðið á eldgosinu í dag. Virkni í stóru sprungunni sé mikil, en virkni í minni sprungunni, sem opnaðist í dag, sé fyrst og fremst á miðri sprungunni.

Þorvaldur var ekki búinn að reikna út flatarmál hraunsins þegar rætt var við hann í dag, en hann segir að hraunið sé komið nokkuð nálægt Jökulsá. Það sé líklega búið að renna um 10 km og eigi ekki eftir nema um einn kílómetra í ána.

Ef sami kraftur verður í eldgosinu næsta sólarhring má búast við að hraunið verði komið út í Jökulsá á morgun og verði þá farið að hafa áhrif á rennsli árinnar.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að síðan á miðnætti hafi mælst 270 skjálftar. Skjálftavirknin er svipuð og undanfarna daga þar sem mest virkni er nálægt norðurenda gangsins. Ekki hafa orðið merkjanlegar breytingar á óróa síðan hann jókst lítillega á næstu stöðvum við gosið upp úr klukkan 4 í nótt.

Hraunið úr nyrðri gossprungunni (sprunga 1) rennur enn aðallega til ANA og hefur lengst frá í gær. Töluverð virkni er í sprungunni og er hæðin á gufustrókum ca. 15.000 fet. Mun minni strókar eru frá nýju sprungunum (sprunga 2) en gufa og gas stígur til suðausturs. Sigketillinn í Dyngjujökli virðist hafa dýpkað en engar breytingar er að sjá á Bárðarbungu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert