Vilja að meðdómarinn víki

mbl.is/Hjörtur

Verjendur í Milestone-málinu fóru fram á það í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun að meðdómari í málinu, Bjarni Frímann Karlsson lektor, yrði látinn víkja í því. Til stóð að munnlegur málflutningur færi fram í morgun en vegna kröfu verjendanna var ekki annað tekið fyrir.

Gestur Jónsson, lögmaður eins hinna ákærðu í málinu, greindi frá kröfunni og færði rök fyrir meintu vanhæfi Bjarna. Vísaði hann einkum í fyrirlestra sem Bjarni hafði flutt árið 2010 tengda bankahruninu. Sagði Gestur framsetningu Bjarna fela í sér gildishlaðinn tón bæði í garð fjármálalífsins fyrir hrun og starfsemi endurskoðunarfyrirtækja. Gefið væri í skyn ítrekað að endurskoðendur hafi til að mynda ekki staðið heiðarlega að málum. Framsetningin væri á köflum beinlínis meiðandi.

Gestur sagði að umfjöllun Bjarna um þessi mál gerði hann ótrúverðugan sem meðdómara í málinu. Nefndi hann ýmis fordæmi máli sínu til stuðnings. Sagði hann óþarfa að taka þá áhættu að hafa Bjarna áfram sem meðdómara sem gæti þýtt að endurtaka þyrfti allt málið á síðari stigum. Of miklir hagsmunir væru í húfi.

Verjendur annarra í málinu tóku ekki til máls að öðru leyti en því að þeir sögðust taka undir með Gesti þegar dómarinn í málinu, Arngrímur Ísberg, spurði hvort þeir vildu taka til máls. Arngrímur lýsti því þá yfir að krafan yrði tekin til úrskurðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert