Of margir lausir endar

Liv Bergþórsdóttir, forstjóri símafyrirtækisins Nova, lýsir yfir áhyggjum af innleiðingu rafrænna skilríkja í farsímum í tengslum við skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar. Segir hún of stuttan tíma vera til stefnu svo hægt sé að gera innleiðinguna vel úr garði og því þurfi að horfa til annarra lausna fyrir allan þann fjölda sem sótt hefur um skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar. Þjónustan er ekki komin í gagnið hjá Nova og einhver bið á að svo verði.

Ný og kostnaðarsöm þjónusta

„Yfirleitt er ný þjónusta prófuð á hópi viðskiptavina og prufukeyrð í einhverjar vikur, ekki örfáa daga,“ segir Liv sem geldur varhug við því að setja nýja þjónustu, eins og að virkja rafræn skilríki á SIM-kortum viðskiptavina, í umferð án viðunandi prófunar. Segir hún tímarammann of knappan og hafi Nova lýst því yfir bæði við verkefnastjórn skuldaleiðréttingarinnar og Auðkenni. Einnig sé ekki komin niðurstaða í viðræður um hvað þjónustan muni kosta en Liv segir kostnað við þróun þessarar lausnar töluverðan fyrir símafyrirtækin enda SIM-kort sem taka við rafrænum skilríkjum dýrari en þau hefðbundnu. Síminn, eitt símafyrirtækja sem eru hluthafar í Auðkenni, hefur boðið þjónustuna endurgjaldslaust en óljóst er hvort eða hve lengi önnur símafyrirtæki geta fylgt því fordæmi.

Veflykill ríkisskattstjóra

Hátt í 70.000 manns hafa nú óskað eftir skuldaleiðréttingu á skráningarsíðu ríkisskattstjóra og segir Liv að í kjölfar fyrirspurna þeirra hafi komið í ljós að meirihluti þeirra hafi nýtt veflykil ríkisskattstjóra við innskráningu en ekki rafræn skilríki. Segir hún þetta til marks um að horfa þurfi til þess að bjóða áfram upp á veflykil ríkisskattstjóra sem leið til að samþykkja útreikninga skuldaleiðréttingarinnar sem væntanlegir eru eftir rúman mánuð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert