Veflykill verði notaður í stað rafrænna skilríkja

mbl.is/Ernir

Neytendasamtökin fara fram á það við stjórnvöld að fyrst hægt hafi verið að sækja um höfuðstólslækkun verðtryggðra lána með veflykli  Ríkisskattstjóra verði hægt að staðfesta höfuðstólslækkunina með sama hætti. Samtökin segja að rafræn skilríki hafi enn ekki náð að festa sig í sessi.

Þetta kemur fram á vef samtakanna. 

Bent er á, að umsóknarfresturinn til að sækja um höfuðstólsækkun sé liðinn og innan skamms þurfi lántakendur að staðfesta niðurstöðuna.

„Sótt var um höfuðstólslækkunina á vef Ríkisskattstjóra og til þess notaður veflykill sem hver og einn hefur. Þennan sama veflykil hafa framteljendur notað um árabil til að telja fram og skila skattaframtali þar sem fram koma margvíslegar persónuupplýsingar.

Nú hefur komið fram að ekki eigi að nota þennan sama veflykil þegar kemur að því að einstaklingar samþykki höfuðstólslækkunina, heldur skuli notuð rafræn skilríki. Ekki hefur enn verið sýnt fram á nauðsyn þessa. Ljóst er að jafnvel tugþúsundir einstaklinga verða að óbreyttu að verða sér úti um rafræn skilríki á skömmum tíma til að geta samþykkt höfuðstólslækkunina. Rafræn skilríki hafa, þrátt fyrir áralangan undirbúning, ekki enn fest sig í sessi og virðist vera ýmsum vandkvæðum bundið að verða sér úti um þau,“ segja samtökin í tilkynningu.

„Það er krafa Neytendasamtakanna að fyrst hægt var að sækja um höfuðstólslækkun með veflykli  Ríkisskattstjóra verði  hægt að staðfesta höfuðstólslækkunina með sama hætti. Ef ástæða þessa er sú að veflykillinn telst ekki lengur örugg leið þá ætlast Neytendasamtökin til þess að fram komi haldbærar skýringar og frekari rökstuðningur vegna þess og þá einnig að skýrt verði  hvers vegna veflykillinn hafi þá verið notaður um árabil, og nú síðast fyrir nokkrum mánuðum, við gerð skattframtala,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert