Bitnar verst á tekjulægri heimilum

Ólafía Björk Rafnsdóttir, formaður VR.
Ólafía Björk Rafnsdóttir, formaður VR. mbl.is

Stjórn VR hefur sent frá sér ályktun um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar þar sem mótmælt er auknum álögum á þorra launafólks og harmað framkomu stjórnvalda í garð atvinnulausra sem þurfi að þola skerðingu á bótarétti sínum. Hækkun á lægra þrepi virðisaukaskatts úr 7% í 12% komi verst niður á tekjulægri heimilum sem þegar séu komin að þolmörkum.

„Launafólk með lægstu tekjurnar ver í dag 17,6% ráðstöfunartekna sinna í matar- og drykkjarvörur á móti 10,7% hjá þeim sem hafa hæstu tekjurnar, eins og sjá má á myndinni hér til hliðar. Breytingarnar á virðisaukaskattskerfinu, sem ríkisstjórnin leggur nú til, leggst með næstum tvöfalt meiri þunga á lægsta tekjuhópinn en þann hæsta. Það er óásættanlegt.“

Hækkun barnabóta og breytingar á vörugjöldum jafni ekki út þessa hækkun matvæla hjá launalægsta hópnum að mati stjórnar VR líkt og stjórnvöld héldu fram. Að auki væru fjölmargir launamenn með lágar- og millitekjur barnlausir eða með eldri börn á framfæri og fæstir þeirra væru tíðir gestir í þeim verslunum sem gætu lækkað verð á sínum vörum í kjölfar afnáms almennra vörugjalda.

„Stjórn VR mótmælir harðlega aðför stjórnarvalda að atvinnulausum, sérstaklega þeim einstaklingum sem hafa verið hvað lengst án atvinnu. Skerðing á bótarétti er þungur skellur og kippir fótunum undan fjölda fólks. Atvinnuleysi minnkar ekki við það að velta vandanum yfir á sveitarfélögin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert