Bráð lífshætta stafar af gasinu

Holuhraun seint í nótt
Holuhraun seint í nótt Skapti Hallgrímsson

Mikið gasstreymi er í og í kringum eldstöðina. Bráð lífshætta stafar af gasinu og ekki er óhætt að nálgast svæðið án gasmæla og gasgríma. Við gosstöðvarnar má búast við sífelldum staðbundnum breytingum á vindátt vegna hitauppstreymis, sem gera aðstæður þar mjög hættulegar. Þetta kemur fram í yfirliti af fundi vísindamanna í morgun.

Upplýsingar um loftgæði í Reykjahlíð, á Egilsstöðum og á Reyðarfirði eru nú aðgengilegar á vefsíðunni loftgæði.is. Dreifingarspá Veðurstofunnar gerir ráð fyrir að seinnipartinn í dag geti styrkur mælst á bilinu 30-40µg/m3 á geira sem gæti náð yfir Vopnafjörð, Egilsstaði og Reyðarfjörð. Sá styrkur gefur ekki tilefni til neinna sérstakra ráðstafana. Tilmæli frá Sóttvarnalækni og Umhverfisstofnun má finna á heimasíðum stofnananna.

Ekkert dregur úr gosinu í Holuhrauni. Samkvæmt athugunum á vettvangi er gosvirkni svipuð og undanfarna daga. Hraun rennur áfram til austurs af svipuðum krafti og áður. Nú rennur hraunið í farveg Jökulsár á Fjöllum. Áin flæmist til austurs undan hrauninu. Ekki er sprengivirkni þar sem hraunið rennur í ána en gufubólstrar stíga til himins.

Um 80 skjálftar hafa mælst frá miðnætti, þeir stærstu í norðurhluta Bárarbunguöskjunnar, 5,5 og 4,9 að stærð. Órói virðist vera svipaður og undanfarna daga.

GPS-mælingar sýna óverulegar jarðskorpuhreyfingar þannig að kvikustreymi inn í ganginn virðist haldast svipað og útstreymi í gosinu í Holuhrauni.

Þrír möguleikar eru taldir líklegastir um framvindu:

Öskjusig í Bárðarbungu hættir áður en það verður mikið og gosið í Holuhrauni fjarar út.

Stórt öskjusig í Bárðarbungu. Gos í Holuhrauni verður langvinnt eða vex. Mögulegt að sprungan lengist til suðurs inn undir Dyngjujökul og valdi jökulhlaupum og gjóskufalli. Einnig er mögulegt að sprungur opnist annars staðar undir jöklinum.

Stórt öskjusig í Bárðarbungu og gos í öskjubroti. Slíkt gos gæti brætt mikinn ís og valdið verulegu jökulhlaupi.

Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir.

Frá Veðurstofu Íslands:

Litakóði fyrir flug er appelsínugulur fyrir Bárðarbungu og gulur fyrir Öskju.

Af vef Umhverfisstofnunar
Af vef Umhverfisstofnunar
Holuhraun seint í nótt
Holuhraun seint í nótt Skapti Hallgrímsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert