Getur verið varasamt að gefa

Facebook á tölvuskjá
Facebook á tölvuskjá Ernir Eyjólfsson

Tæplega 23 þúsund íslenskir notendur eru skráðir í lokaðan hóp á Facebook sem nefnist Gefins, allt gefins. Þar skipta um hendur alls kyns vörur án þess að peningagreiðsla komi í staðinn. En það getur jafnvel verið varasamt að gefa.

Ung kona skrifaði um lífsreynslu sína og setti inn færslu á síðu hópsins. Hún var að gefa í gær hillu, rúm og sængur og sendi henni þá ungur strákur skilaboð og falaðist eftir rúminu. Var það auðfengið.

Hálftíma síðar bankar maður upp á hjá henni og segist vera að sækja rúmið fyrir umræddan strák. Í millitíðinni hafði hún hins vegar samþykkt að gefa öðrum hilluna og aðra sængina.

Konan sem býr í fjölbýlishúsi var búin að færa dótið allt fram á gang hjá sér og þar ræddi hún við manninn sem bankaði upp á. „Hann tekur rúmið og sér svo sængurnar sem eru þarna frammi. Hann rífur þær uppúr pokanum og segist ætla taka þær líka og vilji fá að skoða þessa hillu sem ég var með.

Svo varð hann heldur betur ósáttur þegar ég sagði að hillan væri farin og ég væri búin að lofa annarri sængunum. Sagði að það virkaði ekki svoleiðis á þessari síðu heldur væri það bara fyrstur kemur fyrstur fær!

Á þessum tímapunkti var ég orðin hrædd við hann því hann var alltaf að reyna gægjast yfir öxlina á mér og inn í íbúðina.“

Maðurinn var þegar búinn að fara með rúmið út í sendiferðabíl sinn þegar hann gerði einnig tilkall til sænganna. „Hann ætlaði að rjúka út með sængurnar og ég kallaði eftir honum hvort hann ætlaði virkilega að ræna þeim. Þá snarstoppaði hann og sagði mér að "vera ekki með þessa helvítis stæla" og var virkilega ógnandi.
Svo var hann bara farinn með dótið.“

Að lokum varar konan aðra við sem ætla sér að gefa í gegnum síðuna, að passa sig á því að gefa ekki hverjum sem er upp heimilisfang sitt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert