Hefur þungar áhyggjur af fjárveitingum

Háskólaráð Háskóla Íslands hefur sent frá sér ályktun þar sem lýst er yfir þungum áhyggjum af áframhaldandi óviðunandi rekstrarumhverfi háskólans sjöunda árið í röð verði fjárveitingar til skólans með þeim hætti sem kynnt er í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015. Minnt er á að framlög til háskólamenntunar á Íslandi fari enn lækkandi í samanburði við meðaltal OECD-ríkja og þá sérstaklega önnur Norðurlönd.

Hins vegar er því fagnað að veita eigi auknu fé í samkeppnissjóði Vísinda- og tækniráðs samkvæmt fjárlagafrumvarpinu hækka nokkra reikniflokka vegna kennslu. „Hins vegar verður ekki betur séð en að sú reikniaðferð sem notuð hefur verið af stjórnvöldum undanfarin ár til þess að áætla fjölda ársnema í fjárlögum hafi verið aftengd. Reiknireglan byggir á vegnu meðaltali fjölda ársnema undanfarinna þriggja ára. Allar áætlanir Háskóla Íslands ganga út frá því að reiknireglan sé notuð. Þannig vantar 440 m.kr. í kennslufjárveitingu til Háskóla Íslands fyrir árið 2015 sem samsvarar því að ekki sé greitt með yfir 500 ársnemum.“

Háskólaráð bendir ennfremur á að hækkun skrásetningargjalds við skólann árið 2014 úr 60.000 krónur í 75.000 krónur hafi verið látin skila sér að mjög litlu leyti til skólans. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert