Leikur á móti Clive Owen

Íslenska leikkonan Ylfa Edelstein landaði nýlega hlutverki í nýrri þáttaröð The Knick í leikstjórn Steven Soderbergh. Sögusviðið er Knickerbocker spítali í New York árið 1900 þar sem læknar reyna að bjarga mannslífum í takt við vísindi þess tíma. Clive Owen fer með aðalhlutverkið og leikur bráðsnjallan en einstaklega erfiðan og hrokafullan lækni. Ylfa leikur hjúkrunarkonu í þáttunum, Nurse Baker, og leikur á tíðum á móti Owen. Þrátt fyrir stuttan sýningartíma hafa þættirnir fengið gríðarlega góð viðbrögð um allan heim en þeir hófu göngu sína í haust.

Höfundar þáttanna, Jack Amiel og Michael Begler, eru gríðarlega ánægðir með Ylfu í sínu hlutverki og segir Amiel í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins að hún sé sérstaklega hæfileikarík. „Ylfa er einstök og við erum virkilega ánægðir með að hafa fengið hana í teymið okkar. Fyrir vikið viljum við að Nurse Baker fái enn fleiri senur í þáttunum,“ segir Amiel. Ylfa hefur einnig brugðið fyrir í ýmsum þáttum á skjáum landsmanna svo sem Law & Order þáttunum, A Gifted Man og fleiri.

Þýsk blóð rennur í æðum Ylfu en hún er þó fædd og uppalin í Reykjavík. Hún ákvað ung að aldri að fylgja draumum sínum um að verða leikkona og hefur frá 19 ára aldri búið í Bandaríkjunum. „Líf leikarans er mikil óvissa en ég valdi þetta líf og það hentar mér vel,“ segir Ylfa. „Þetta verður ekki auðveldara með aldrinum en ég er ánægð með það sem ég vildi gera í lífinu og lifi því lífi sem ég kýs. Ég hef ávallt fylgt hjartanu og hugsa vel um sjálfa mig.“ 

Fjölskylda Ylfu á ótrúlega fortíð og ræðir hún um lífið og leiklistarferilinn í einlægu viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kemur út nú um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert