Matarútgjöldin aukast um 42 þúsund á ári

mbl.is/Gúna

Lítill munur er á hlutfalli heildarútgjalda til matarkaupa eftir tekjuhópum, segir í nýjum útreikningum Rannsóknarseturs verslunarinnar. Samkvæmt þeim er meðaltalshækkun á útgjöldum hvers heimilis 41.882 krónur á ári.

Í tilefni af umræðu um áhrif hækkunar virðisaukaskatts á matvæli úr 7% í 12%, eins og boðað er í nýju fjárlagafrumvarpi, hefur Rannsóknasetur verslunarinnar reiknað út hver útgjaldaaukning heimilanna verður eftir tekjuhópum.

„Niðurstaðan er að lítill munur er á hlutfalli (%) heildarútgjalda til matarkaupa eftir tekjuhópum, 14,7% af heildarútgjöldum tekjulægsta hópsins og 14,5% af heildarútgjöldum tekjuhæsta hópsins. Þá kemur fram að tekjulægsti hópurinn mun greiða 33.385 kr. meira á ári fyrir matarinnkaupin eftir hækkun virðisaukaskattsins en tekjuhæsti hópurinn greiðir 52.756 kr. meira vegna hækkunar á skattinum. Mismunurinn á útgjöldum hæsta- og lægsta tekjuhópsins er því 19.371 kr. á ári, eða 3.490 kr. á mánuði.  Meðaltalshækkun á útgjöldum hvers heimilis verða samkvæmt þessu 41.882 kr. á ári,“ segir í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.

Útreikningurinn byggir á upplýsingum úr neyslukönnun Hagstofunnar 2011-2012. Allar upphæðir hafa verið leiðréttar fyrir verðlagsbreytingum og eru á verðlagi dagsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert