Þetta er staðurinn til að vera í kyrrð

Ferðaþjónustan Urðartindur á bænum Norðurfirði á Ströndum.
Ferðaþjónustan Urðartindur á bænum Norðurfirði á Ströndum.

Árið 2010 hóf Arinbjörn Bernharðsson uppbyggingu ferðaþjónustunnar Urðartinds á bænum Norðurfirði á Ströndum, þar sem hann ólst upp. Foreldrar hans voru með búskap þar fram til ársins 1995 er jörðin lagðist í eyði. Núna, fjórum árum eftir að uppbyggingin hófst, standa þar smáhýsi sem leigð eru út til ferðamanna, útbúið hefur verið tjaldstæði og gömul hlaða gegnir hlutverki gistihúss og aðstöðu fyrir þá sem gista tjaldstæðið. Fyrir tveimur árum hóf Arinbjörn að bjóða upp á siglingar á Hornstrandir, sem þá höfðu legið niðri í nokkur ár og hafa ferðamenn tekið vel í þær.

Stöðugt hefur fjölgað þeim gestum sem sækja Norðurfjörð heim og Arinbjörn telur að fjölgunin sé um 25% á milli ára. Íslendingar séu þar í minnihluta. „Ætli útlendingar séu ekki um 60% þeirra sem koma til mín,“ segir Arinbjörn. „Þeir koma alls staðar frá; margir eru frá Þýskalandi og Frakklandi, en ég hef líka fengið til mín fólk alla leið frá Ástralíu og Kóreu.“

Spurður um hvað dragi ferðamenn frá svo fjarlægum slóðum á Strandirnar segir hann ástæðurnar vera margvíslegar. „Margir koma vegna allra gönguleiðanna á svæðinu,“ segir hann og nefnir að sérstaklega vinsælt sé að ganga fyrir Strút og fara síðan í sundlaugina á Krossnesi sem er við sjávarmálið. Aðrir komi vegna fámennisins og rólegheitanna á staðnum. „Þetta er staðurinn til að vera í kyrrð og ró, þar er ekki yfirfullt af ferðamönnum og fólk getur virkilega notið þess að heyra í öldunni við sandinn.“

Sóknarfæri í rólegum stöðum

Sjálfur er Arinbjörn búsettur á höfuðborgarsvæðinu, en heldur á Strandirnar á sumrin og segir það endurnærandi fyrir líkama og sál.

„Á Ströndum er róandi og ljúft. Þar er gott að vera til og ég er viss um að það er sóknarfæri í því að bjóða upp á rólega staði, sem eru víða á útnárum landsins.“

Arinbjörn Bernharðsson
Arinbjörn Bernharðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert