Flúði og endaði á ljósastaur

mbl.is/Eggert

Skömmu eftir klukkan eitt í nótt höfðu lögreglumenn í hyggju að kanna ástand ökumanns sem ók eftir Langatanga í Mosfellsbæ. Þegar ökumaðurinn varð þess var að lögreglan gaf honum stöðvunarmerki jók hann hraða bifreiðar sinnar.

Þegar komið var í Álfahlíð skall bifreiðin harkalega á ljósastaur. Ökumaðurinn, karlmaður á fertugsaldri, náðist skömmu síðar á hlaupum. Hann reyndist áberandi ölvaður og gistir nú fangageymslu. Ljósastaurinn brotnaði og þurfti að kalla til menn frá Orkuveitunni til að aftengja hann. Dráttarbifreið þurfti til að fjarlægja bifreiðina sem ekið var á staurinn.

Um svipað leyti veittu lögreglumenn á eftirlitsferð bifreið athygli sem ekið var gegn rauðu ljósi á Suðurlandsbraut og Grensásvegi. Eftir að akstur bifreiðarinnar hafði verið stöðvaður kom í ljós að ökumaðurinn, karlmaður á þrítugsaldri, var ölvaður undir stýri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert