Lítill hluti kviku upp á yfirborðið

Hraun rennur áfram í farveg Jökulsár á Fjöllum.
Hraun rennur áfram í farveg Jökulsár á Fjöllum. mbl.is/RAX

Aðeins lítill hluti þeirrar kviku sem er á hreyfingu í jarðskorpunni á gossvæðinu í grennd við Bárðarbungu kemur upp á yfirborðið í Holuhrauni. Eldfjallafræðingurinn Haraldur Sigurðsson telur að það sé ekki nema um fimm til tíu prósent. Meirihluti kvikunnar fari hins vegar í að stækka kvikuganginn.

Staða og horfur um eldgosið í Holuhrauni og áframhaldandi sig í Bárðarbungu eru óbreyttar og heldur sig Bárðarbungu áfram. Jarðskjálftavirkni er með líkum hætti og verið hefur síðustu daga og sýnir GPS mælir á Bárðarbungu um hálfs metra sig síðasta sólarhringinn. Gangur eldgossins í Holuhrauni er svipaður og verið hefur síðustu daga. Hraun rennur áfram í farveg Jökulsár á Fjöllum.

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur segir á vefsvæði sínu að greinilegt sé að sig öskjunnar undir Bárðarbungu sé tengt kvikurennsli út úr kvikuþró undir öskjunni og út í ganginn til norðurs og að hluta til upp á yfirborð í Holuhrauni.

Hann segir að síðan gosið hófst hafi hraun um 20 ferkílómetrar á stærð gosið í Holuhrauni. „Það lætur nærri að meðal þykkt hraunsins sé um 3 til 4 m. Þá eru komnir upp um það bil 60 til 80 milljón rúmmetrar af hrauni. Þetta er framleiðslan á tólf dögum, eða um 5 til 7 milljón rúmmetrar á dag. Þetta er að sjálfsögðu mikið magn, en reyndar sáralítið kvikurennsli í samanburði við til dæmis Lakagosið (Skaftárelda 1783), þegar framleiðslan var um 100 til 200 milljón rúmmetrar á dag.“

Þá nefnir Haraldur að öskjusigið í Bárðarbungu sé talið um 0,8 metrar á dag. „Lauslega áætlað er flatarmál öskjunnar um 130 ferkílómetrar. Reyndar sígur ekki allur öskjubotninn, heldur miðja hans mest, en samkvæmt þessu er sigið lauslega áætlað um 50 til 100 milljón rúmmetrar á dag. Ef það er nærri lagi, þá kemur aðeins um 5 til 10% af kvikunni upp á yfirborðið, en mikill meirihluti kvikunnar fer í að stækka ganginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert