Þrjú þúsund nýir heimsforeldrar

Dagur rauða nefsins náði hámarki í gærkvöldi í rúmlega fjögurra klukkustunda skemmti- og söfnunarþætti á RÚV. Óhætt er að segja að kalli UNICEF hafi verið svarað því þrjú þúsund manns gengu í lið með heimsforeldrum UNICEF og mikill fjöldi núverandi heimsforeldra hækkaði mánaðarlegt framlag sitt.

Meginmarkmið átaksins var að gleðja landsmenn, bjóða þeim að gerast heimsforeldrar og fræða þá um baráttu UNICEF í þágu barna um allan heim. Í útsendingunni í gærkvöldi voru einnig tvö þúsund manns sem styrktu söfnunina með öðrum hætti. Fjöldi fólks og fyrirtækja hringdu auk þess inn og lögðu átakinu lið með stökum framlögum.

Heimsforeldrar eru nú orðnir um 25.000 talsins á Íslandi. UNICEF starfar í yfir 190 löndum og heimsforeldrar eru hlutfallslega hvergi fleiri í heiminum en á Íslandi. 

„Við gætum ekki verið ánægðari með niðurstöðuna sem er framar okkar björtustu vonum. Landsmenn tóku átakinu afar vel nú sem endranær. Fjöldi fólks skartaði rauðu nefi í vikunni og studdi okkur á ótal vegu. Við bjóðum alla nýja heimsforeldra UNICEF hjartanlega velkomna og erum þakklát og snortin yfir því hve stór hluti þjóðarinnar leggur baráttu UNICEF lið,“ segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert