Koma ónýttu húsnæði ÍLS í útleigu

Lagt er til að ónýtt húsnæði ÍLS verði sett í …
Lagt er til að ónýtt húsnæði ÍLS verði sett í útleigu. mbl.is/Sigurður Bogi

Þingmenn Samfylkingar munu mæla fyrir tveimur þingsályktunartillögum á komandi viku; Annars vegar um aðgerðir til að efla lítil og meðalstór fyrirtæki og fyrirtæki í tækni- og hugverkaiðnaði og hins vegar um bráðabirgðaaðgerðir í byggðamálum.

Er þetta í samræmi við áherslur flokksins fyrir þingveturinn sem kynntar voru á blaðamannafundi í dag. Þar segir að tillögunar séu byggðar á verðlaunatillögum sem lagðar voru fyrir tækni- og hugverkaþing 2013.

Lagt er til að fjármála- og efnahagsráðherra undirbúi og flytji frumvarp til laga þar sem lífeyrissjóðum eru veittar auknar heimildir til að fjárfesta í tækni- og hugverkafyrirtækjum. Samkvæmt núgildandi lögum er lífeyrissjóðum heimilt að fjárfesta fyrir allt að tuttugu prósent af hreinni eign sinni í óskráðum verðbréfum en lagt er til að auka hlutfallið í 25 prósent.

Frumkvæði jafnaðarmanna dregið til baka

Þá eru einnig lagðar til skattabreytingar sem felast í ívilnunum til handa einstaklingum og fjárfestingarsjóðum sem hyggjast fjárfesta í litlum og meðalstjórum fyrirtækjum einnig lagðar til. Árni Páll segir höft og veikan gjaldmiðil skapa hættu á bólum og einhæfni í atvinnulífi og nauðsynlegt sé að afla fjölbreytt atvinnulíf. „Áhersla núverandi ríkisstjórnar hefur verið sú að draga til baka margháttað frumkvæði ríkisstjórnar jafnaðarmanna í uppbyggingu stoðkerfis tækni- og atvinnuþróunar. Þess vegna er brýn þörf á að snúa vörn í sókn,“ segir í greinargerð tillögunnar. „Það hefur ekki verið hvatt nógu mikið til verk- og tæknináms og það er sorglegt að sjá fólk á atvinnuleysisbótum þegar störf eru til í þeim geira. Það þarf að efla verk- og tækninámið og fá fleiri nemendur,“ sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, á blaðamannafundinum.

Í fjárlögunum sem lögð voru fram í síðustu viku er gert ráð fyrir að framlög til vísinda og nýsköpunar verði aukin um átta hundruð milljónir króna á næsta ári og tvo milljarða árið 2016. Aðspurður hvort aðgerðir ríkisstjórnarinnar gangi ekki nógu langt segir Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, að með þeim sé verið að koma aftur með framlög í tækniþróunar- og rannsóknarsjóð sem tekin hafi verið frá þeim. „Þau viðurkenna að það hafi ekki verið rétt hjá þeim og við erum sátt og ánægð með það,“ segir hún. „Hér er hins vegar verið að leggja til aðrar breytingar til að örva fjárfestingar en snúa ekki beint að fjárlögum.“

Ónýtt húsnæði ÍLS í útleigu

Í þingsályktunartillögunni um bráðabirgðaaðgerðir í byggðamálum eru lagðar til margvíslegar aðgerðir sem eru sagðar til þess fallnar að jafna tækifæri landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. 

Þannig er lagt til að fjárframlög til sóknaráætlana landshluta aukin og lykiláhrif heimamanna tryggð við úthlutun til verkefna, framlög til vegamála og almenningssamganga til verði aukin til samræmis við áætlanir fyrri ríkisstjórnar, að sjávarbyggðir fái hlutdeild í veiðigjaldi og að byggðastofnun verði tryggður byggðakvóti.

Þá er lagt til að Íbúðalánasjóður komi ónýttu húsnæði í notkun með því að koma íbúðum í útleigu og stóriðja taki þátt í jöfnun húshitunarkostnaðar og kerfi flutningsjöfnuður verði eflt. Lagt er til að ferðamönnum verði dreift betur um landið með því að búa til „segla“ fyrir þá um allt land og að lokum að raforkuöryggi og flutningsgeta verði tryggt og ljósleiðari hringtengdur.

Árni Páll telur málefnin vera þess eðlis að hægt sé að vinna þau í góðri samvinnu þvert á flokka. „Við lögðum fram bráðaaðgerðir á leigumarkaði á síðasta þingi og ríkisstjórnarflokkarnir tóku vel í þær, þó þeir hafi ekki gert mikið. Við höfum náð að setja þessi mál á dagskrá og viljum leggja þessi mál upp. Þótt ríkisstjórnarflokkarnir taki ekki nema hluta að þessu upp væri það ekkert nema gott mál,“ segir Árni.

Helgi Hjörvar, Árni Páll Árnason og Katrín Júlíusdóttir.
Helgi Hjörvar, Árni Páll Árnason og Katrín Júlíusdóttir. Mynd/Kristinn Ingvarsson
Efla þarf hlut verk- og iðngreina að mati Samfylkingar
Efla þarf hlut verk- og iðngreina að mati Samfylkingar Ljósmynd/Helen Gray
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert