Smáskilaboðin aðeins viðbót

Gosið í Holuhrauni.
Gosið í Holuhrauni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Smáskilaboð í farsíma eru aðeins viðbót við aðra upplýsingagjöf almannavarna og ekki er treyst á þau sem alhliða viðvörunarkerfi. Þetta kemur fram á vef almannavarna vegna viðvarana sem sendar voru út til íbúa Austurlands á föstudagskvöld þegar loftmengun mældist veruleg.

Vísindamenn Veðurstofu Íslands hafi unnið að mælingum á magni brennisteinsdíoxíðs (SO2) sem stígur upp af hrauninu í Holuhrauni. Samkvæmt nýjustu mælingum er afgösun SO2 talin vera allt að 750 kílógrömm á sekúndu. Umhverfisstofnun stefnir að því að setja upp mælitæki á Akureyri og Suðurlandi en taka verði tillit til landfræðilegra aðstæðna á hverjum stað við mat loftgæða.

„[Á föstudagskvöld] lagðist gasskýið yfir austurland og mældist styrkur SO2 tæplega 4000 míkrógrömm á rúmmetra, á Reyðarfirði, sem er hæsta gildi SO2 sem mælst hefur hér á landi. Einnig var fólk vart við gasmengun á Neskaupsstað, Eskifirði, Fáskrúðsfirði og á Egilsstöðum. Fulltrúar Umhverfisstofnunar voru í sambandi við starfsfólk almannavarna [...]. Í ljósi alvarleika málsins var ákveðið að senda út SMS skilaboð í alla farsíma á Eskifirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Neskaupsstað.

SMS kerfið er viðbót við aðra upplýsingagjöf almannavarna. Ekki er treyst á SMS sendingar sem alhliða viðvörunarkerfi. [Á föstudagskvöld] kom t.d. í ljóst að skilaboð bárust seint eða ekki í farsíma eins farsímafyrirtækis.

Fulltrúar almannavarna vinna að því með fulltrúum embættis sóttvarnalæknis, Umhverfisstofnun og Veðurstofu Íslands að bæta upplýsingagjöf til almennings vegna þessa máls. Almenningi er bent á heimasíður þessara stofnanna þar sem finna má gagnlegar upplýsingar um hvernig best er að bregðast gosmenguninni.“

Frétt mbl.is: Gasið berst langt í vindinum

Frétt mbl.is: Viðvörun barst ekki í tæka tíð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert