60% ungra Íslendinga fá háskólagráðu

Í árlegri skýrslu OECD, Education at a glance, um þróun menntamála í aðildarríkjunum kemur fram að miðað við núverandi fjölda brautskráninga megi gera ráð fyrir að um 60% ungra Íslendinga muni ljúka háskólagráðu á lífsleiðinni. 

Hlutfallið er það hæsta innan OECD og á vef mennta- og menningamálaráðuneytisins kemur fram að það skýrist að hluta til vegna þess hve margir stundi háskólanám seinna á lífsleiðinni en Íslendingar eiga jafnframt elstu útskriftarnemana innan OECD.

Hlutfall þeirra sem útskrifast hafa úr framhaldsskóla hefur hækkað jafnt og þétt í um 71% í aldurshópnum 25 til 64 ára. Sérstaklega hefur konum sem ljúka framhaldsskóla fjölgað en um 80% kvenna í aldurshópnum höfðu nú lokið framhaldsskólaprófi, samanborið við 65% í sama aldurshópi um aldamótin.

Engu að síður er hlutfall þeirra sem ljúka framhaldsskóla á skilgreindum námstíma lægst hér á landi. Sex árum frá innritun hafa aðeins 58% lokið framhaldsskóla og er hlutfallið enn lægra hjá innflytjendum, eða um 31%.

Fleiri niðurstöður úr skýrslu OECD um menntamál

Ísland á elstu útskrifarnemana

Minnst atvinnuleysi meðal menntafólks á Íslandi

Ísland fjárfestir minnst í menntun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert