Endurupptaka á borði ríkissaksóknara

Meðal þeirra nýju gagna sem vonast er til að ríkissaksóknari …
Meðal þeirra nýju gagna sem vonast er til að ríkissaksóknari taki afstöðu til er skýrsla Gísla H. Guðjóns­son­ar, pró­fess­ors í rétt­ar­sál­fræði, um falskar játningar. Á myndinni sést Gísli ræða við blaðamenn í mars 2013 þegar skýrsla starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmálin var kynnt. mbl.is/Rósa Braga

Endurupptökunefnd hefur sent endurupptökubeiðni Erlu Bolladóttur og Guðjóns Skarphéðinssonar í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum til ríkissaksóknara til umsagnar. Ríkissaksóknari hefur frest til 22. september til að taka afstöðu í málinu.

Endurupptökubeiðnin var send til ríkissaksóknara 4. september sl. að sögn Ragnars Aðalsteinssonar, lögmanns Erlu og Guðjóns. Hann bætir við að þetta sé afar naumur tími til að fara yfir gögnin, sem telja tugi þúsunda blaðsíðna.

Ragnar segir ennfremur, að það sé nú í höndum ríkissaksóknara að mæla með endurupptöku eða leggjast gegn henni. Hann tekur fram að þriðji möguleikinn sé fyrir hendi, þ.e. að embættið taki ekki afstöðu til beiðninnar. Sú niðurstaða er hins vegar harla ólíkleg að mati Ragnars.

„Ég á erfitt með að sjá fyrir mér að ríkissaksóknari leggist gegn endurupptökunni, með hliðsjón af hinum nýju gögnum sem fram eru komin. Þá á ég ekki síst við mat sálfræðinganna,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is.

Með ummælum sínum vísar Ragnar til skýrslna Gísla H. Guðjóns­son­ar, pró­fess­ors í rétt­ar­sál­fræði, og Jóns Friðriks Sig­urðsson­ar, yf­ir­sál­fræðings á Land­spít­al­an­um], um falsk­ar játn­ing­ar.

End­urupp­töku­beiðnin var lögð inn til endurupptökunefnd­ar­ þann 26. júní sl. Erla og Guðjón, sem hlutu dóma í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum, fara fram á end­urupp­tökuna til að sýna fram á sak­leysi þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert