Fjárhættuspil aukist eftir hrun

Heather Gray, doktor í sálfræði við Harvard-háskólann í Bandaríkjunum.
Heather Gray, doktor í sálfræði við Harvard-háskólann í Bandaríkjunum. Ómar Óskarsson

„Þegar niðurstöður rannsókna sem gerðar voru fyrir efnahagshrunið eru bornar saman við niðurstöður rannsókna sem gerðar voru eftir það, þá kemur í ljós að talsverð aukning hefur orðið á fjárhættuspilun Íslendinga,“ segir Daníel Þór Ólason, dósent í sálfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknarstofa um peningaspil og spilafíkn og Rannsóknarstofa um mannlegt atferli stóðu að málstofu í dag í Norræna húsinu þar sem Daníel hélt erindi ásamt Heather Gray, doktor í sálfræði við Harvard-háskólann í Bandaríkjunum. Tilefni málstofunnar var heimsókn Gray og tekið var á peningaspilun og spilavanda. 

„Heather Gray hefur verið í samstarfi við Rannsóknarstofu um mannlegt atferli um rannsókn sem þau gerðu á gögnum frá Íslenskri getspá. Við erum meðal annars að velta fyrir okkur kostum og göllum þess að peningaspil séu í meira mæli að færast inn á veraldarvefinn,“ segir Daníel. 

Spilun á veraldarvefnum hugsanlega meira ánetjandi

„Það hefur fyrst og fremst orðið aukning þegar kemur að lottói en svo sjáum við líka aukningu í bingói og skafmiðum. Þá hefur líka orðið einhver aukning á fjárhættuspilun á veraldarvefnum, þá aðallega á erlendum vefsíðum. Þá aukningu má að öllum líkindum rekja til þess að það eru fleiri ungir karlmenn að spila peningaspil á netinu, þá sérstaklega póker, en áður,“ segir Daníel. 

„Það eru fáir sem spila eingöngu á veraldarvefnum, þetta er oft einhverskonar viðbót við aðra spilamennsku. Þegar við berum saman þá sem spila bæði á veraldarvefnum og annars staðar, við þá sem spila ekki á veraldarvefnum en þó annars staðar, þá sjáum við að algengi spilavanda er mun hærri hjá þeim sem spila á báðum stöðum. Þessi tengsl hafa menn líka séð í erlendum rannsóknum. Ein skýringin er sú að það að spila fjárhættuspil „online“ sé meira ánetjandi en annarskonar spilun, hugsanlega vegna þess að veraldarvefurinn er alltaf aðgengilegur allan sólarhringinn alla daga ársins. Hraðinn er líka meiri á veraldarvefnum, það gæti verið hugsanleg skýring. Svo gæti líka verið að þeir sem eiga við vanda að stríða séu einfaldlega að færa sig meira yfir í spil á netinu, nú eða bara að þeir sem spila mikið yfir höfuð séu að færa sig yfir í tölvuna. Það er eiginlega ómögulegt að gera upp á milli þessara skýringa. Þetta er meðal annars það sem menn eru að takast á við núna,“ segir hann. 

Lottóið vinsælt sökum ódýrrar þáttöku

„Ég vil meina að þessi aukning sem við sjáum á notkun erlendra vefsíða sé ekki sökum hrunsins, um er að ræða almenna aukningu sem menn sjá á flestum stöðum. Ég vil þó meina að aukning á kaupum á lottómiðum sé að hluta til komin til vegna hrunsins. Þegar illa árar og fólk á við fjárhagsvandamál að stríða, þá eru peningaspil, þar sem það kostar lítið að spila en vinningsupphæðin er há, vinsælli en ella. Ef viðkomandu vinnur, þá breytir það öllum fjárhagnum en tap skiptir litlu máli þar sem þáttakan er tiltölulega ódýr,“ segir hann.

„Því sjáum við þessa aukningu í lottói. Það eru hinsvegar til að mynda færri að spila í spilakössum. Öllu að jafna eyðir fólk meira þegar það spilar í spilakassa en þegar það kaupir sér lottómiða þrátt fyrir að potturinn sé lægri,“ segir Daníel að lokum. 

Daníel Þór Ólason, dósent í sálfræði við Háskóla Íslands.
Daníel Þór Ólason, dósent í sálfræði við Háskóla Íslands. Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert