Gliðnunarhrinan heldur áfram

Eldgosið í Holuhrauni séð úr lofti.
Eldgosið í Holuhrauni séð úr lofti. Rax / Ragnar Axelsson

„Það fór einn hópur að skipta um rafhlöður í GPS-mælum, en var ekkert inni á sjálfum gosstöðvunum þó þeir hafi nú séð til þeirra,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur í samtali við mbl.is nú í kvöld.

Hafa vísindamenn að öðru leyti haldið sig fjarri gosstöðvunum við Holuhraun í dag, en ástæða þess er m.a. sú að verið er að hvíla hópinn og huga að bæði tækja- og vélabúnaði vísindamanna.

Spurður út í gang gossins svarar Ármann: „Þetta er svona álíka og í gær, en ef eitthvað er þá er heldur daufara yfir. Þetta er bara að minnka hægt og rólega núna.“ Að sögn hans heldur hins vegar gliðnunarhrinan á svæðinu enn áfram. „Þetta er bara eins og gengur. Það mun slokkna í þessu og allir geta slappað af í eina til tvær vikur, en svo kemur þetta upp aftur,“ segir Ármann og bætir við að vonandi verði næsta gos á svipuðum slóðum og fjarri jökli.

Sem stendur er nú mest virkni í Baugi, sem er miðgígur gossprungunnar í Holuhrauni, og hefur gosmökkurinn í dag að stórum hluta legið niðri við jörðu sökum lítils hitauppstreymis.  

Aðspurður segir Ármann eitt helsta áhyggjuefni vísindamanna nú vera áframhaldandi kvikustreymi um bergganginn. „Þessi er að loka sér, en samkvæmt skjálfta- og GPS-mælum er engin slökun á. Það er því enn að flæða inn í ganginn.“ 

Nýverið sagði Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur í samtali við Morgunblaðið að verulegar líkur séu á að við séum nú að sjá fram á stórtækar breytingar sem eru stærri en þær sem við höfum séð á síðustu áratugum. Vísaði hann þar til þess mikla sigs sem orðið hefur í öskju Bárðarbungu að undanförnu. 

Ármann segir litla sem enga breytingu hafa orðið á sigi öskjunnar undanfarna daga. „Hún sígur og sígur. Maður vonar nú að hún fari ekki af stað, heldur sé askjan bara að svara þessum tilflutningi á kviku,“ segir hann. „Ef hún fer af stað þá er líklega von á tiltölulega kröftugu sprengigosi,“ segir Ármann og bætir við að helsti kostur goss undir jökli sé sá að þau vara yfirleitt í stuttan tíma. Þeim fylgja þó talsverð öskumyndun og flóðahætta.

Mikill áhugi erlendis frá

Að sögn Ármanns er mikill áhugi meðal erlendra vísindamanna á gosinu og hafa t.a.m. margir sýnt því áhuga að kvikmynda eldsumbrotin í Holuhrauni með það að marki að gefa út heimildamynd. Hafa m.a. tökumenn á vegum BBC og National Geographic myndað gossprunguna auk þess sem þýskir, franskir, norskir og danskir aðilar hafa mætt á svæðið.

Spurður hvort eitthvert ónæði fylgi þessum hópum svarar Ármann: „Það eina sem við höfum beðið um er að þeir trufli ekki okkar vinnu og verða þeir að virða það.“  

Árnann Höskuldsson eldfjallafræðingur.
Árnann Höskuldsson eldfjallafræðingur. Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert