Heilasýni skila sér illa til rannsókna

Hætta er á því að Ísland missi stöðu sína sem …
Hætta er á því að Ísland missi stöðu sína sem kúariðulaust land. Sigurður Bogi Sævarsson

Hætta er á því að Ísland missi stöðu sína sem kúariðulaust land. Ekki er það vegna þess að kúariða hefur greinst hér á landi heldur sökum þess hversu illa heilasýni úr nautgripum skila sér til rannsókna.

Alþjóðlega dýraheilbrigðismálastofnunin (OIE) hefur viðurkennt Ísland sem kúariðulaust land á sögulegum forsendum. Þar vegur þyngst að kúariða hefur aldrei greinst hér á landi, lifandi nautgripir hafa ekki verið fluttir inn síðan 1933, bannað hefur verið að flytja inn kjöt- og beinamjöl síðan 1968 og óheimilt er að fóðra nautgripi á kjöt- og beinamjöli síðan 1978. Þessi alþjóðlega viðurkenning er afar mikilvæg fyrir íslenska nautakjötsframleiðslu og heilnæmi íslensks landbúnaðar.

En til þess að Ísland geti viðhaldið þessari stöðu sinni hjá OIE, þarf ákveðinn fjöldi heilasýna úr nautgripum að berast árlega til riðuskimunar og segir Matvælastofnun að sýni skili sér illa til rannsókna. Því sé hætta á að Ísland missi stöðu sína.

Matvælastofnun óskar eftir samstarfi við nautgripabændur við að tryggja þessa miklu hagsmuni landsins, með því að leggja til sýni úr fullorðnum nautgripum sem drepast eða er slátrað heima. Bændur snúa sér þá til síns héraðsdýralæknis og í samráði við þá er tekin ákvörðun hvort eftirlitsdýralæknir frá Matvælastofnun taki sýnin, dýralæknir viðkomandi bús eða bóndinn sjálfur. Í öllum tilfellum er sýnatakan bændum að kostnaðarlausu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert