„Ómetanleg landkynning fyrir Ísland“

Gestir ráðstefnunnar ferðast vítt og breitt um landið til að …
Gestir ráðstefnunnar ferðast vítt og breitt um landið til að kynnast landi og þjóð. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ráðstefna Society of American Travel Writers, eða SATW, hefst í kvöld og stendur yfir út vikuna. Samtökin voru stofnuð um 1980 með það að markmiði að halda í vandvirkni og heiðarleika í skrifum um ferðamál.

Um er að ræða stórviðburð fyrir íslenska ferðaþjónustu þar sem um 400 bandarískir og kanadískir ferðamálarithöfundar, blaðamenn og ljósmyndarar munu ferðast um landið og kynnast landi og þjóð.

Tiltölulega stór hluti þeirra gesta sem komu til landsins í síðustu viku og hafa lokið ferðalagi sínu um landið eru atvinnuljósmyndarar sem ætla sér að taka þátt í ljósmyndakeppni sem ráðstefna SATW stendur fyrir. Á meðal dómara eru RAX, Ragnar Axelsson, og verða verðlaunin veitt á lokahófi ráðstefnunnar í Hörpu.

Um það bil helmingur ráðstefnugestanna hefur nú þegar ferðast um landið á vegum Iceland Travel en hinn helmingurinn mun gera svo næstu dagana og í næstu viku.

Gestrisni Íslendinga kemur á óvart 

Einn forvígsmanna samtakanna leitaði til Meet in Reykjavík í september á síðasta ári til þess að kanna möguleikann á að halda ráðstefnuna hér á landi en það er ráðstefnudeild Iceland Travel heldur utan um og skipuleggur viðburðinn.

Helga Lára Guðmundsdóttir, deildarstjóri Iceland Travel, segir ferðaskrifstofuna hafa tekið að sér stór verkefni áður en þetta verkefni sé öðruvísi og talsvert flóknara í framkvæmd. Alls hafa starfsfólk Iceland Travel skipulagt um 40 ferðir fyrir gestina.

Helga Lára segir þessar ferðir ekki líkjast þeim sem hinn almenni ferðamaður fær að kynnast þó gestunum gefst líka kostur á að skoða marga vinsælustu ferðamannastaðina. „Lagt er áherslu á að upplifun gestanna sé einstök. Að þeir fái að kynnast íslenskri menningu, bókmenntum, tónlist, listaverkum og mat líkt og náttúrunni. Þá fá gestirnir að kynnast sveitarlífinu líkt og borginni,“ segir Helga Lára.

Viðbrögð gestanna sem hafa lokið ferðalagi sínu um landið hafa verið mjög góð að sögn Helgu Láru. Þá segir hún það koma þeim helst á óvart hvað Íslendingar séu gestrisnir og hvað þeir hafa gaman af því að þjóna erlendum ferðamönnum.  

„Viss um að þetta skili sér í kassann"

Ráðstefnan telst vera mikill hvalreki fyrir íslenska ferðaþjónustu enda eru margir af þeim sem sækja ráðstefnuna þekkir og margverðlaunaðir í sínum geira. Þar má nefna Bea Broda, sem er þekkt fyrir umsjón sína með ferðaþáttum í Kanadíska útvarpinu.

Helga Lára segir mikilvægt að Ísland komi vel út og upplifun gestanna af landi og þjóð sé góð. Þá telur hún að landkynningin eigi eftir að skila ómetanlegum verðmætum til íslenskrar ferðaþjónustu líkt og ráðstefnan hefur gert fyrir önnur lönd. „Ég er alveg viss um að þetta á eftir að skila sér í kassann.“

Borgarstjórinn setur opnunarhátíðina

Fjölmargir ræðumenn halda erindi á ráðstefnunni. Þeirra á meðal er Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, Kristín Loftsdóttir og Gísli Pálsson, mannfræðingar. 

Má því búast við því að gestir ráðstefnunnar komi til með að öðlast góða mynd af íslenskri sögu og samfélagi.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, setur opnunarhátíðina í kvöld og hefst ráðstefnan að fullu á morgun.

Gestum ráðstefnunnar gefst kostur á að skoða vinsælustu ferðamannastaðina í …
Gestum ráðstefnunnar gefst kostur á að skoða vinsælustu ferðamannastaðina í ferðum sínum um landið. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert