Slys á háskólasvæðinu

Maður slasaðist lítillega er hann féll úr stiga í stóru tjaldi nærri Háskóla Íslands um hálfníuleytið í gærkvöldi. Tjaldið hýsir hátíð stúdenta Októberfest þessa dagana.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var maðurinn að vinna við að taka niður ljós í tjaldinu. Hann notaði til þess 4 m stiga er hann reisti upp við tæplega 5 m háa tjaldsúlu. Vindhviða varð til þess að tjaldið lyftist og súlan, sem ekki var föst við jörðina, færðist til og maðurinn datt úr stiganum. Maðurinn var fluttur með sjúkrabifreið til aðhlynningar á bráðamóttöku og samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins eru meiðsl hans ekki talin alvarleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert