Áður tvö til þrjú varðskip til taks

Lilja Rafney Magnúsdóttur
Lilja Rafney Magnúsdóttur Golli / Kjartan Þorbjörnsson

 „Fyrr á árum voru tvö til þrjú varðskip til taks en nú er aðeins ein áhöfn í vinnu í einu,“ sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, á Alþingi í dag. Hún telur að það ætti að vera hægt að auka fjárveitingar til málaflokksins.

„Landhelgisgæslan er með viðvarandi aðhaldskröfu á sínum rekstri og það hlýtur að vera á ábyrgð fjármálaráðherra að tryggja gæslunni fjármagn til reksturs. 95 milljónar króna aðhaldskrafa er ekkert náttúrulögmál,“ sagði Lilja Rafney og bætti við: „Nú ætti að vera komið borð fyrir báru til að auka fjárveitingar til þessa málaflokks.“

Lilja Rafney benti á að ekki hafi verið hægt að senda strax fullkomnasta varðskip landsins á staðinn þegar flutningaskipið Akrafell strandaði við Reyðarfjörð fyrr í þessum mánuði. „Fyrr á árum voru tvö til þrjú varðskip til taks en nú er aðeins ein áhöfn í vinnu í einu.“

Í einni af fréttum mbl.is af strandi Akrafells við Vattarnes kom fram að sækja hafi þurft stýrimann af Ægi með þyrlu, því enginn skipherra var laus til að stýra Þór, sem lá í Reykjavíkurhöfn. „Ægir var á sjó, en rekstraráætlanir Landhelgisgæslunnar gera ráð fyrir að það sé bara eitt skip á sjó eins og ákveðið var í lok síðasta árs,“ segir Hrafnhildur Brynja Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar. „Svo kemur upp þetta mál og aðrir skipherrar Gæslunnar ekki á landinu.“

Frétt mbl.is: Skipherrann sóttur á strandstað

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert