Líkkistusmiður í tómstundum

Arnór Magnússon, flugradíómaður og smiður, hóf störf hjá Flugmálastjórn 1985 sem starfsmaður í flugturni á Ísafjarðarflugvelli. Hann hefur verið umdæmisstjóri Isavia á Ísafirði frá 2010 og hefur sem slíkur umsjón með rekstri flugvallanna á Vestfjörðun, starfsmannahaldi og tilfallandi verkefnum. Arnar er ósköp venjulegur Ísfirðingur; ræktar fjölskylduna og stundar fjallgöngur og skíði, en hann ver mörgum tómstundunum á óvenjulegan hátt; við líkkistusmíðar.

„Ég er húsasmiður að mennt og vann við þá grein til að byrja með, eða frá 1975 til 1985. En ég þekkti gamlan líkkistusmið á Ísafirði, Kristinn Levý hét hann, og um þetta leyti, 1995-1996, fór ég að kíkja í smiðju til hans og ráðfæra mig; fannst svolítið heillandi að smíða líkkistur,“ útskýrir Arnór.

Engin útfararþjónusta

Arnór áætlar að hann hafi smíðað um það bil 300 kistur á ferlinum en það er gott dagsverk að klára hverja kistu, með saumaskap. Eiginkona Arnórs, Dagný Jónsdóttir, saumar innan í kisturnar og kodda, sæng og blæju að auki. „Ég passa mig á því að vera með góðan lager á undan mér í þremur meginstærðum til að lenda ekki í vandræðum og á yfirleitt kistur fyrir sumarið eftir veturinn,“ segir Arnór en sumrunum vilji hann gjarnan verja í annað en smíðarnar. Hann segir kistusmíðarnar þó alls ekki niðurdrepandi. Í einstaka tilfellum sé um að ræða ótímabært andlát, „það er ekkert einfalt,“ segir hann, en þáttur hans í útfararferlinu takmarkist við að taka við pöntun og skila kistunni af sér.

„Á Ísafirði er engin útfararþjónusta. Þ.e.a.s. þetta virkar þannig að ég hef smíðað líkkisturnar, sjúkrahúsið sér um að ganga frá hinum látna í kistuna og kirkjan sér um athöfn vegna kistulagningar og jarðarför, ásamt því að útvega líkbílinn.“ Arnór segir að langstærsti hluti pantana komi frá Ísafirði og nágrenni. Leiðin á suðurfirðina, Tálknafjörð, Patreksfjörð og Bíldudal, lokist á veturna.

Flestar enda ofan í jörðinni

Arnór segir fátt hafa breyst frá því hann hóf smíðarnar. Flestir óski eftir hefðbundnum kistum, þótt ýmsir kostir séu í boði. „Ég er alltaf með á lager hefðbundnar hvítlakkaðar furukistur með gyllingu í skrauti en svo get ég útvegað kistur úr eik, birki og furu og er þá í samstarfi við líkkistusmið í Hafnarfirði,“ segir hann. Langflestar kisturnar enda ofan í jörðinni. „Ég er ekki beinlínis að smíða fyrir bálfarir en þó hafa nokkrar kistur frá mér farið í bálför,“ segir Arnór. „Þá hef ég bæði sent kistu suður en oftar er það þannig að kisturnar fara héðan til brennslu í Reykjavík. En þetta eru ekki mörg tilfelli hér.“

Hundrað ferðir felldar niður

Arnór segir rekstur flugvallanna á Vestfjörðum ganga vel, þeir séu vel mannaðir og starfsfólkið samhent. Hann segir tvímælalaust áskorun að búa við jafnþröngan fjörð og Ísafjörð þegar flug er annars vegar. „Þegar vindur stendur þvert á fjöll getur verið mikið misvindi hér í firðinum og að jafnaði falla niður um hundrað ferðir á ári bara vegna veðurs. Það er mest á tímabilinu frá miðjum nóvember og út mars,“ segir hann.

Auk áætlunarflugs fer um völlinn eitthvað af leigu- og sjúkraflugi ásamt einkaflugi á sumrin en Arnór segir einkavélunum hafa farið fækkandi undanfarin misseri vegna aukins kostnaðar, t.d. vegna hærra eldsneytisverðs.

Arnór og Dagný eiga þrjár uppkomnar dætur, tvær þeirra búa á svæðinu, önnur á Ísafirði og hin í Bolungarvík, en sú þriðja í Reykjavík. Þá eiga þau fimm barnabörn en þegar Arnór er ekki að sinna fjölskyldunni, flugvellinum eða smíðunum eru það íþróttirnar sem lokka. „Til dæmis voru skíði mér nánast lífið á unglingsárunum, eða frá 12-20 ára. Þá stundaði ég þau af kappi og geri enn þegar færi gefst,“ segir hann.

Líkkistusmíðar
» Arnór segist telja að um 70-80% allra líkkista sem seldar eru á Íslandi séu innflutt.
» Hann segist vita til þess að líkkistusmiðir séu starfandi á t.d. Selfossi, Húsavík og Egilsstöðum.
» Þegar hann hóf smíðarnar vann hann í flugturninum á Ísafirði. „Það hentaði ágætlega að smíða með því, þá var ég að vinna í viku og átti svo frí í viku,“ segir hann.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert