Losa Reykvíkinga við valkvíðann

Útgefendur Reykjavík Grapevine kynntu í dag nýtt snjallforrit eða „app“ til sögunnar sem hjálpar notandanum að ákveða hvaða veitingastað í Reykjavík viðkomandi eigi að snæða á. Þegar forritið er opnað er síminn hristur duglega og þá stingur það upp á veitingastað og gefur helstu upplýsingar auk umsagnar byggðri á umfjöllunum Grapevine í gegnum tíðina.

Snjallforritið heitir Craving en á íslenskri tungu myndi nafnið útleggjast sem „fýsn“ eða „þrá“. Samkvæmt fréttatilkynningu frá Reykjavík Grapevine er hugmyndin að svangir Reykvíkingar geti nú loks látið valkvíðann lönd og leið og segir Hilmar Steinn Grétarsson, útgefandi Grapevine að snjallforritið hafi þegar sannað notagildi sitt fyrir hann.

„Eins og flestir sem lifa eða starfa á svæðinu vita getur stundum verið erfitt að ákveða sig þegar kemur að því að ákveða hvar hádegismaturinn skuli snæddur - ég er vissulega í þeim hópi. Því hefur mér þótt frábært að geta reitt mig á Craving síðustu vikur, ef eitthvað skortir upp á andagiftina,“ segir Hilmar.

Craving er ekki fyrsta snjallforrit Grapevine því fjölmiðillinn stendur einnig að baki Appy Hour sem lóðsar notandann um tilboð á öldurhúsum borgarinnar. Hægt er að sækja Craving hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert