Víkingaskipið aftur á sinn stað

Ingvar Ágústsson, Ágúst Loftsson og Loftur Ágústsson við skipið í …
Ingvar Ágústsson, Ágúst Loftsson og Loftur Ágústsson við skipið í gær. Það var illa farið en með lagni og dugnaði tókst þeim að endurgera það þannig að það lítur út eins og nýtt. mbl.is/Kristinn

Víkingaskipinu á þaki Fálkahússins við Hafnarstræti 1-3 í Reykjavík var komið fyrir á sínum stað í gær eftir að hafa verið gert upp í sumar. Útskornu fálkarnir, sem hafa verið á stöfnum hússins í rúma öld, hafa einnig verið í höndum handverksmanns og verða settir upp á næstunni.

Fálkahúsið á sér langa og merkilega sögu. Eftir að nýir eigendur tóku við húsinu 1997 hafa verið gerðar miklar endurbætur á því, bæði innanhúss og utan, og segir Loftur Ágústsson, einn fjögurra eigenda, að nánast hafi verið skipt um allt tréverk. Í áfanga síðast liðins sumars hafi verið skipt um öll langbönd og þverbönd í þaki og í vor hafi síðan verið komið að fálkunum og víkingaskipinu, sem Sigurður Ólafsson frá Butru í Fljótshlíð skar út.

Alltaf haft gaman af að mála

Loftur vann ásamt syni sínum og bróður við endurbætur á skipinu með hléum frá því í maí í vor.

„Ég hef alltaf haft gaman af því að mála, hef bæði málað og teiknað í gegnum tíðina og tók því þetta verkefni í fljótfærni að mér,“ segir hann. „Það reyndist viðameira en ég hélt að það yrði. Trésmíði hefur aldrei verið mín sterkasta hlið en með hjálp góðra manna gekk allt vel að lokum.“

Að sögn Lofts var skipið mjög illa farið. „Þetta er lágmynd, sem er tálguð að hluta til úr um tveggja tomma þykku timbri,“ útskýrir hann. Bætir við að myndin hafi síðan verið hækkuð upp með krossviðarfellingum og allt hafi þetta verið komið á tíma fyrir löngu. Góður vinur hafi hjálpað til við að tölvuteikna allar lágmyndirnar og þegar búið hafi verið að laga, bera á og fúaverja nýju hlutana hafi þeim verið komið fyrir og heildin síðan máluð. „Þetta var töluverð vinna en nú er henni lokið.“

Loftur segir að vissulega sé gaman að hlutum sem setja svip á borgina eins og þetta gamla skip gerir. Víða erlendis séu hús skreytt svo eftir sé tekið en ekki sé mikið um slíkt í Reykjavík. „Fálkahúsið sker sig úr vegna þess að það er byggt eins og skip og svo rísa stafnar í vestur- og austurenda,“ útskýrir hann.

Hafnarstræti 1-3 er að stofni til frá 1868, þegar miðhluti þess var reistur. Austurhlutinn var byggður 1885 og vesturhlutinn 1907, þegar húsin þrjú voru felld í eina heild, samkvæmt teikningum Einars Erlendssonar arkitekts. Húsið er friðað og í útleigu en í því eru nú veitingastaðir og minjagripaverslun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert