Vonandi gýs áfram á söndunum

Vísindamenn við mælingar á útbreiðslu hraunsins sem rennur úr eldgosinu …
Vísindamenn við mælingar á útbreiðslu hraunsins sem rennur úr eldgosinu í Holuhrauni. Elísabet Pálmadóttir og Ármann Höskuldsson/Facebooksíða Jarðvísindastofnunar

Eldgosið í Holuhrauni er að fjara út en það þýðir ekki að jarðhræringum sé lokið á þessum slóðum því það fer væntanlega að gjósa annars staðar fljótlega, vonandi verður það bara á söndunum, segir Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. 

Ármann var staddur í Mývatnssveit þegar mbl.is náði tali af honum en fer á gosstöðvarnar síðar í dag. Hann segir fremur rólegt yfir eldgosinu í Holuhrauni og líkt og fyrri daginn sé virknin mest í miðgígnum, Baugi. Eins hafa komið rokur úr Suðra í nótt, segir Ármann.

„Hraunið breiðir aðallega úr sér núna þar sem framleiðnin er orðin það lítil að það ræður ekki við að ýta þessum rana áfram sem kominn er. Þess í stað breiðir það úr sér,“ segir Ármann. 

„Svo kemur bara nýtt gos“

Hann segir að gosið í gígnum í Holuhrauni geti kannski tórað í nokkra daga til viðbótar en svo deyi það út. „Svo kemur bara nýtt gos,“ segir Ármann.

Ármann segir að á sama tíma og mikið kvikumagn er í ganginum er ekki mikið magn kviku komið upp á yfirborðið þannig að reikna megi við öðru gosi sem leysi þetta gos af í Holuhrauni. Óvíst sé hins vegar hvar gjósi næst og alls ekki víst að það verði í Bárðarbungu líkt og margir hafa óttast.

„Það getur orðið aftur á sléttunni en þetta snýst um að það verður að losa um þá kviku sem safnast upp í kvikuganginum, segir Ármann. „Eina leiðin er upp,“ bætir hann við.

Óvíst er hvenær gýs en það sem er ljóst að það mun gjósa þar sem gliðnunarhrinan er ekki búin. Þetta gos í Holuhrauni lognast út af eins og var í Kröflueldum á sínum tíma, segir Ármann.

„Þegar þrýstingurinn er orðinn of mikill þá kemur hann upp aftur. Það er bara vonandi að það verði niðri á söndunum (Dyngjusandi) og haldi sig þar og fari ekki í jökulinn enda nægt pláss fyrir hraunið á Dyngjusandi.

65 skjálftar frá miðnætti

Að sögn Bergþóru S. Þorbjarnardóttur, sérfræðings á jarðvársviði Veðurstofu Íslands hafa mælst um 65 jarðskjálftar á skjálftasvæðinu frá miðnætti. Sá stærsti er 4,8 stig klukkan 10:30 í morgun og eru upptök hans í Bárðarbunguöskjunni. Annar skjálfti sem mældist 3,4 varð á svipuðum slóðum um klukkan 9:15 í morgun. Líkt og undanfarna daga er virknin mest í ganginum undir Dyngjujökli.

Tekið í Holuhrauni um helgina.
Tekið í Holuhrauni um helgina. Elísabet Pálmadóttir og Ármann Höskuldsson/Facebooksíða Jarðvísindastofnunar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert