Seldist upp á sex mínútum

Það seldist upp á tónleika Baggalúts. Aukatónleikum verður bætt við.
Það seldist upp á tónleika Baggalúts. Aukatónleikum verður bætt við.

Hinir árlegu Jólatónleikar Baggalúts fóru í sölu í morgun klukkan níu. Fáeinum mínútum síðar var orðið uppselt á þá sex tónleika sem haldnir verða síðstu tvær helgarnar fyrir jól í Háskólabíói.

„Þetta gerðist mjög hratt í morgun, fólk er að hringja brjálað í okkur. Við settum sex tónleika í sölu, yfirleitt höfum við sett tvenna eða þrenna. Háskólabíó tekur tæplega þúsund manns í sæti svo við erum að tala hátt í sex þúsund manns,“ segir Bragi Valdimar Skúlason, meðlimur Baggalúts.

„Gestir mega eiga von á góðu jólastuði. Það verða þarna leynigestir og hið hefðbundna jólafjör. Við verðum hinsvegar ekki fyrir norðan í ár eins og hefur verið að undanförnu. Okkur þykir það að sjálfsögðu leiðinlegt en af ýmsum ástæðum var það ekki hægt,“ segir hann.

Á undan IKEA í jólagírinn

„Við verðum sautján á sviðinu svo þetta er smá útgerð. Þetta er held ég tíunda skiptið sem við höldum sambærilega tónleika, annars er ég ekki alveg klár á því. Við byrjuðum að mig minnir í Iðnó árið 2004,“ segir Bragi Valdimar. Til að koma til móts við tónleikaþyrsta gesti verður aukatónleikum bætt við og hefst salan á þá á föstudag klukkan 10 á midi.is. Þess má einnig geta að Baggalútur verður með tvenna tónleika á Græna hattinum á Akureyri á föstudag, en það verða einu tónleikar sveitarinnar á Norðurlandi þetta árið.

„Við erum komnir í jólagírinn í september, á undan IKEA. Það er alltaf markmiðið,“ segir Bragi kíminn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert