Bókatitlum kann að fækka

Bækur.
Bækur. Árni Sæberg

Félag bókagerðarmanna mótmælir harðlega hækkun virðisaukaskatts á bækur úr 7% í 12%. Bendir félagið að hækkun útsöluverðs bóka auki námskostnað framhaldsskólanema og geti orðið til þess að bókatitlum sem gefnir verða út á Íslandi kunni að fækka.

„Bókaútgáfa er undirstaða þess að íslensk tunga þróist og dafni og því þarf að standa vörð um útgáfu og dreifingu bóka á íslensku. Hækkun útsöluverðs bóka eykur námskostnað framhaldsskólanema og slælegar niðurstöður grunnskólabarna í alþjóðlegum lestrarkönnunum hræða. Hækkun útsöluverðs bóka verður auk þess trauðla til þess að fjölga þeim sem lesa sér til gagns eða auka málkennd,“ segir í ályktun stjórnar félagsins.

Þá segir að hækkun virðisauka á bækur veiki markaðsstöðu bókarinnar og dragi væntanlega úr sölu hennar. í kjölfarið kunni bókatitlum sem gefnir verða út á Íslandi að fækka. „Það væri afleit þróun fyrir íslenska tungu og menningu að ógleymdri lífsafkomu allra þeirra fjölmörgu sem koma að skrifum, framleiðslu, dreifingu og sölu bóka á Íslandi. Nær væri að stjórnmálamenn sýndu íslenskri menningu og tungu stuðning í verki og afnæmu virðisaukaskatt á bókum á öllum vinnslustigum og styrku þannig greinina alla. Þá stæðum við keik á tyllidögum og værum raunveruleg bókaþjóð.“

Félagið telur að hækkun á lægra þrepi virðisaukaskatts komi verst niður á tekjulægri heimilum. „Breytingarnar á virðisaukaskattskerfinu, sem ríkisstjórnin leggur nú til, leggst með næstum tvöfalt meiri þunga á lægsta tekjuhópinn en þann hæsta þegar útgjöld vegna matvæla eru skoðuð. Kerfisbreytingin eykur á hættu að verðlag hækki meira en efni standa til. “

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert