„Eins og að lýsa fótboltaleik“

Íslenska útgáfan af Minute To Win It mun hefja göngu …
Íslenska útgáfan af Minute To Win It mun hefja göngu sína á morgun á Skjá Einum. Ljósmynd/Skjár Einn

„Mér fannst þetta ekkert svakalega erfitt, þetta er svipað því sem ég geri með hljómsveitinni, að stýra stórum partíum, og þá þarf maður að hafa næga orku allan tímann,“ segir segir Ingólfur Þórarinsson, jafnan nefndur Ingó veðurguð. Sýningar á þrautaþættinum Minute To Win It hefjast á Skjá Einum annað kvöld.

Skjár Einn og Sagafilm hafa ráðist í fram­leiðslu á ís­lenskri út­gáfu þrautaþátt­araðar­inn­ar banda­rísku Minu­te To Win It og hófust tök­ur í lok júní.

Í þátt­un­um þurfa ein­stak­ling­ar og tveggja manna lið að leysa gríðar­erfiðar þraut­ir og hafa eina mín­útu til að leysa hverja þeirra. Tak­ist það hækk­ar vinn­ings­upp­hæðin og eft­ir því sem fleiri þraut­ir eru leyst­ar verða þær erfiðari og upp­hæðin hærri eft­ir því.

Fólk finnur til samkenndar með keppendum

Ingó segist vera nokkuð spenntur fyrir fyrsta þættinum. Hann segist tvisvar hafa orðið vitni að því að undanförnu þegar hópar hafa fengið að sjá brot úr þættinum og telur að þátturinn komi fólki nokkuð á óvart. „Fólk finnur til samkenndar með keppendum og spennist upp,“ segir Ingó í samtali við mbl.is.

Ingó stýrir þáttunum og er þetta í fyrsta skipti sem hann gegnir hlutverki sem þessu. „Þetta er dálítið eins og að lýsa fótboltaleik. Það þarf að hvetja fólkið áfram, segja því hvað það gæti gert betur og ræða við það.“

Inntökupróf fyrir þáttinn fór fram í maí og fengu þeir keppendur sem valdir voru að sjá allar þrautir sem hugsanlega verða lagðar fyrir þá í þáttunum. Keppendurnir höfðu því tíma til að æfa sig en eðli málsins samkvæmt áttu þeir ekki kost á því að æfa allar þrautirnar vel og vandlega. Ingó segir að sumir hafi verið heppnir og fengið þær þrautir sem þeir höfðu æft vel.

Sumir voru virkilega pirraðir

„Sumir voru virkilega pirraðir en flestir héldu þokkalega haus,“ segir Ingó, aðspurður um viðbrögð þátttakenda þegar þeir gátu ekki leyst þrautirnar. Hann segir að mikil spenna hafi ríkt í salnum enda flottir vinningar í húfi.

Þrautirnar eru flestar, ef ekki allar, þannig að hversdagslegir hlutir á borð við dósir, blýantar, dollur og borðtenniskúlur eru notar til að leysa þær og ættu þau sem sitja heima í stofu að geta spreytt sig á þeim. „Þetta er eins og að mæta í gott partí þar sem snilldar frænka kom með þrautir,“ segir Ingó.

Hér að neðan má sjá brot úr ástralskri útgáfu þáttarins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert