Aukið jafnrétti þýðir ekki fjölgun afbrota

Kvenkyns lögreglumönnum hefur fjölgað nokkuð á síðustu árum en það …
Kvenkyns lögreglumönnum hefur fjölgað nokkuð á síðustu árum en það sama er ekki hægt að segja um kvenkyns afbrotamenn. Eggert Jóhannesson

Afar heppilegt þykir að aukið jafnrétti kynjanna hafi ekki leitt af sér fjölgun afbrota kvenna. Þróunin er þvert á kenningar afbrotafræðingsins Fridu Adler sem spáði því í bók sinni, Sisters in Crime árið 1975, að hlutdeild kvenna í afbrotum yrði orðin jöfn hlutdeild karlmanna árið 2015.

Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsvísindum við Háskóla Íslands, heldur fyrirlestur á morgun um ósýnileika kvenna í afbrotum á landsfundi jafnréttisnefnda í Reykjavík í Iðnó. Hann mun meðal annars fjalla um kenningar afbrotafræðingsins Fridu Adler sem byggði kenningu sína á breytingum í afbrotahegðun kvenna á áttunda áratugnum og jafnframt á samfélagsbreytingum sem hún taldi að myndu leiða til að kynin stæðu jöfnum fæti hvarvetna í samfélaginu.

„Þetta hefur í sjálfu sér ekki gengið eftir. Á síðustu árum hafa verið svona þrjár til sjö konur í fangelsum á Íslandi og í lögreglugögnum eru 10% til 30% brotamanna konur en það er ekkert mikið hærra en þegar Adler skrifaði bókina,“ segir Helgi sem telur samfélagið geta þakkað félagsmótun fyrir að konur fremji ekki eins marga glæpi og karlar. 

„Það væri dálítið skuggalegt. Í stað þess að vera með 170 manns í fangelsi værum við kannski með 350 og þá væri skálmöld ríkjandi á Íslandi. Ef karlar færu hinsvegar að hegða sér eins og konur værum við komin í draumasamfélagið með aðeins um 10 til 15 manns í fangelsi.“

Geta framið brotin en gera það ekki

Helgi segir að á sjötta og sjöunda áratugnum hafi verið settar fram skýringar á lægri afbrotatíðni meðal kvenna sem grundvölluðust ekki í atferlinu sjálfu heldur viðbrögðum við atferlinu. Karlar hafi veigrað sér við að bendla konur við afbrot hvort sem voru dómarar, lögreglumenn eða karlmenn innan afbrotahópa.

„Það er vissulega atferlismunur á kynjunum sem skýrist að einhverju leiti að félagslegri og menningarlegri mótun. Þegar maður skoðar líffræðilegan mun sést að það er í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að konur fremji brot til jafns við karla,“ segir Helgi og bendir á að konur geti stungið, skotið og framið kynferðisbrot en geri það ekki í jöfnum mæli.

Hann segir ýmislegt í félagsmótun kvenna valda því að þær rækti stórt séð með sér annars konar siðferðiskennd en karlar. Sögulega séð hafi körlum leyfst meira en konum, munur sé á væntingum til kynjanna og tækifærum þeirra til athafna. „Það er menningar- og félagslegur arfur þarna að baki sem þurrkast ekki út á nokkrum áratugum og hefur enn áhrif á kynin þrátt fyrir aukið jafnrétti á öðrum sviðum.“

Helgi nefnir einnig að áhugavert sé að skoða fjölmiðlaumfjöllun um afbrot eftir því hvort kynið á í hlut. Þegar konur myrði séu þær t.a.m. yfirleitt annað hvort málaðar upp sem djöflar eða geðsjúklingar enda búi sú hugmynd djúpt innra með okkur að venjulegar konur myrði.

„Þegar konur drepa eru menn einnig fljótir að koma með skýringar sem gera þær að þolendum, þær hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu eiginmanns eða í æsku,“ segir Helgi og hann segir að slík sé hinsvegar ekki raunin með karlmennina. „Þeir eru bara dæmdir fyrir afbrotin og það er lítið verið að pæla í því þó þeir hafi verið beittir ofbeldi í æsku.“

Misjöfn tækifæri til efnahagsbrota

Helgi segir glæpsamlegt athæfi kvenna helst birtast í þjófnaði, smá hnupli, fíkniefnaneyslu og vændi en að meira sé um að karlmenn fremji ofbeldis- og auðgunarbrot. Hann segir að þó svo að kenning Fridu Adler hafi ekki staðist myndi hún líklega benda á að enn sé langt í land þegar komi að jafnrétti kynjanna. 

„Það hefur t.a.m. mikið verið rætt um efnahagsbrot hér á Íslandi. Konur höfðu ekki jöfn tækifæri til að fremja þau brot, það voru aðallega vel greiddir jakkafatadrengir með skjalatöskur sem voru í þessum bransa,“ segir Helgi.

Þegar kemur að morðum eru vissulega mun fleiri karlmenn sem sakfelldir en Helgi segir þó áhugavert að skoða ákveðna anga innan slíkra glæpa með tilliti til kyns. Aðeins um 10% morða eru framin af konum en þegar kemur að fólki sem myrðir sín eigin börn eru konur um 30% gerenda. 

„Eitt það áhugaverðasta sem hefur verið að gerast síðustu 20 árin er hinsvegar að afbrotatíðni fer lækkandi í Vestur-Evrópu. Þegar við skoðum afbrotatíðni eftir kyni sjáum við að afbrotum karla er að fækka en afbrotatíðni kvenna er nokkuð óbreytt,“ segir Helgi. „Maður getur slegið því fram í hálfkæringi að karlarnir séu farnir að hegða sér eins og konurnar í auknum mæli. Bilið er í sjálfu sér aðeins að minnka en ekki vegna þess að konur séu að færa sig upp á skaftið eins og Frida Adler taldi að myndi gerast.“

Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við HÍ fjallar um konur …
Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við HÍ fjallar um konur og afbrot í fyrirlestri sínum á morgun. Friðrik Tryggvason
Á bilinu þrjár til sjö konur hafa dvalið í fangelsi …
Á bilinu þrjár til sjö konur hafa dvalið í fangelsi á Íslandi hverju sinni á síðustu árum. Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert