Kom heim kjálkabrotinn og blóðugur

Kötturinn Mjási í góðu yfirlæti og átti sér einskis ills …
Kötturinn Mjási í góðu yfirlæti og átti sér einskis ills von. Linda Björg Björnsdóttir

Svo virðist sem köttur hafi orðið fyrir fólskulegri árás á dögunum í Rimahverfinu í Reykjavík. Eigandi hans, Linda Björg Björnsdóttir, segir að kötturinn Mjási hafi komið heim rétt fyrir miðnætti þann 15. september sl., alblóðugur og kjálkabrotinn. 

Hundur á heimilinu tók eftir því að ekki var allt með felldu hjá Mjása. Hundurinn og kötturinn eru miklir vinir og eru vanir að leika sér saman en nú brá svo við að Mjási hvæsti á hvern þann sem nálgaðist hann og virtist mjög hræddur, segir Linda.

Líklega af mannavöldum

Linda telur að áverka Mjása megi einna helst rekja til árásar af mannavöldum. Bendir hún á að ef hann hefði lent í bílslysi eða annað dýr hefði ráðist á hann, væru fleiri áverkar á líkama hans. 

Dýralæknirinn sem annaðist Mjása var henni sammála að hugsanlega hefði verið ráðist á hann en benti þó á að hátt fall, þar sem kjálki kattarins rekst harkalega í jörðina, gæti valdið svipuðum áverkum. Linda er þó ekki sannfærð um að það hafi verið raunin, en Mjási er afar lofthræddur og því enginn klifurköttur. 

Mikill samhugur

Linda og maður hennar hafa deilt raunum Mjása á samfélagsmiðlum og skapaðist mikill samhugur og umhyggja um afdrif hans. Linda segir að fleiri hafi haft svipaða sögu að segja af sínum dýrum og er hún því áhyggjufull um öryggi dýra hverfisins. Hún brýnir því fyrir íbúum hverfisins að hafa augun opin og láta vita verði þeir varir við einhvers konar ofbeldi gegn dýrum.

Þess má geta að Mjási er heill á húfi og er kominn heim til sín eftir dvöl á dýraspítalanum. Þeir sem vilja fylgjast með afdrifum hans er bent á hóp sem eigendur hans halda úti á Facebook.

Kötturinn Mjási var illa farinn og kjálkabrotinn eftir það sem …
Kötturinn Mjási var illa farinn og kjálkabrotinn eftir það sem allt bendir til að hafi verið árás af mannavöldum. Linda Björg Björnsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert