„Skotland yrði allt annað land“

Skiptar skoðanir eru um ágæti sjálfstæðis Skotlands.
Skiptar skoðanir eru um ágæti sjálfstæðis Skotlands. AFP

„Það er stór dagur framundan, ég er alveg ótrúlega spenntur að sjá hvað gerist,“ segir Daði Kolbeinsson, óbóleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands, um kosningarnar í Skotlandi á morgun.

Daði er fæddur og uppalinn í Skotlandi en hefur búið hér á landi í fjölmörg ár og tók upp íslenskt nafn. Hann segir fólki nokkuð heitt í hamsi í heimalandinu vegna kosninganna og býst við góðri kjörsókn. 

Hræðsluáróður frá Bretlandi áberandi

„Þetta lítur þó ekki eins vel út fyrir okkur sjálfstæðissinna núna og fyrir kannski viku eða tíu dögum,“ segir Daði. „Það hefur verið mikið um hræðsluáróður frá stjórnvöldum í Bretlandi síðustu daga sem hefur haft áhrif.“

Daði telur sjálfstæði Skotlands vera góða hugmynd. „Ég held að það væri skemmtilegt. Þeir sem eru að reyna að koma í veg fyrir þetta tala aðallega um peninga og gleyma alveg skoskri menningu.“

Aðspurður um hræðsluáróður Englendinga nefnir Daði peninga. „Það er reynt að höfða til hræðslu og sagt að Skotland muni hafa það miklu verra í framtíðinni ef þeir „óhlýðnast“. Ég held að það verði þó ekki raunin.“

Í gær sendu leiðtog­ar þriggja stærstu stjórn­mála­flokka Bret­lands frá sér yf­ir­lýs­ingu þar sem þeir hétu því að skoska þingið fái auk­in völd hafni Skot­ar sjálf­stæði í kosn­ing­unum. Daði segir að aukinn ákvörðunarréttur Skota komi oft upp rétt fyrir kosningar. „En yfirleitt er bara talað um það fyrir kosningar og ekkert gerist eftir þær. Þannig að ég hef vantrú á þessum loforðum. 

Margir neita að gefa upp skoðun

Daði á nokkra vini í Skotlandi og fylgist hann vel með gangi mála þar. Hann segir skiptar skoðanir í landinu og að enn séu margir sem vilja ekki gefa upp skoðun sína. „Það eru til að mynda oft mjög skiptar skoðanir innan fjölskyldna. Ein skosk vinkona sem ég talaði við í gær sagði að hún myndi alls ekki gefa upp hvernig hún myndi kjósa. Hún veit að hún fær skammir í fjölskyldunni hvort sem hún segist ætla að kjósa já eða nei.

Menn eru ansi heitir þessa dagana og það er mjög skemmtilegt,“ segir Daði. „Pólitík hefur verið frekar dauf í Skotlandi undanfarin ár. Eina marktæka sem hefur gerst er að Þjóðernisflokkurinn hefur komist til valda á skoska þinginu og hefur jafnframt nokkra fulltrúa í London.“

Teluru að kjörsókn verði mikil

Daði ætlar að reyna að fylgjast með kosningunum á morgun eins vel og hann getur. „Ég spila á tónleikum með sinfóníuhljómsveitinni á morgun en ég býst við að fyrstu alvöru tölur komi fljótlega eftir að  þeim er lokið, eða um 10 leytið. Þá ætla ég aldeilis að fylgjast með.“

Daði telur að kjörsókn verði mikil á morgun. Til þess að fá að kjósa er nauðsynlegt að hafa skráð sig áður og hafa um 80-90% Skota skráð sig. Aðeins fá þeir sem búa í Skotlandi að kjósa, þannig Daði kýs ekki á morgun. 

„Ég tel að sjálfstæði yrði mikilvægt fyrir þjóðarstolt Skotlands,“ segir Daði.  Við erum stolt af okkur sem þjóð. Til að mynda hafa Skotar fundið upp margar af mikilvægustu uppfinningunum mannkynssögunnar, eins og símann og sjónvarpið. Jafnframt verður miklu meiri áberandi munur á Skotlandi og Englandi ef að sjálfstæði næst. Núna er munurinn aðeins á yfirborðinu og aðeins fyrir túrista. Skotland yrði allt annað land.“

Daði Kolbeinsson.
Daði Kolbeinsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert