Taka á móti um 3.500 ferðamönnum

Tómas Ari Gíslason, starfsmaður Borea, sýnir inn í skápinn sem …
Tómas Ari Gíslason, starfsmaður Borea, sýnir inn í skápinn sem geymir bún- aðinn til kajaksiglinganna. mbl.is/KRISTINN INGVARSSON

Ferðaþjónusta er vaxtarbroddur í atvinnulífinu á Ísafirði eins og víðar um land. Eitt fyrirtækjanna á staðnum sem vaxið hefur og dafnað með fjölgun erlendra ferðamanna er Borea Adventures sem býður upp á kynni af óspilltri náttúru Vestfjarða með kajaksiglingum, göngum, skíðaferðum og ýmsu öðru móti. Einnig er boðið upp á siglingar við Grænland.

Vaxið og dafnað

„Við erum tólf sem vinnum að þessu yfir háannatímann frá því snemma á vorin og fram á haust,“ segir framkvæmdastjórinn Rúnar Karlsson í samtali við Morgunblaðið. Hann segir að yfir veturinn séu starfsmennirnir tveir og eru þá að skipuleggja næstu vertíð og vinna að markaðsssetningu.

Borea Adventures hóf starfsemi árið 2006. Þá festu eigendurnir kaup á skútunni Auroru sem siglt var um nærliggjandi firði með göngufólk og notuð sem bækistöð. Gistu ferðalangar um borð og mötuðust.

Umsvifin hafa aukist hratt frá þeim tíma. Nú er fyrirtækið með myndarlega starfsstöð í miðbæ Ísafjarðar, í húsi sem heitir Bræðraborg, þar sem tekið er á móti ferðamönnunum. Þar er rekin kaffistofa og líka hægt að snæða og láta útbúa fyrir sig nestispakka. Setur starfsemin svip á lífið í bænum.

Kajakferðir vinsælastar

Kajakferðirnar njóta mestra vinsælda. Rúnar segir að það sé breiður hópur sem sæki í þær, flestir á aldrinum 35 til 65 ára, frá Norður-Evrópu og Norður-Ameríku. Ferðirnar eru ýmist stuttar, siglt í um tvo og hálfan tíma, eða allt að sex daga langar.

Borea rekur bátinn Bjarnarnes og er með hann í siglingum á Hornstrandir á sumrin. Hann tekur 18 manns í einu. Suma daga fer Bjarnarnesið þrjár ferðir og nota bæði íslenskir og erlendir ferðalangar sér þessa þjónustu. Í boði eru siglingar til Aðalvíkur, Hesteyrar, Vatnsleysufjarðar, Hornvíkur, Grunnavíkur og fleiri staða.

Vaxandi vinsældir

Óhætt er að segja að Vestfirðir njóti vaxandi vinsælda sem ferðamannastaður. Möguleikar til hvers konar útivistar þar eru ótæmandi. Í fljótu bragði gætu einhverjir haldið að kajaksiglingar og göngur um mannlausa eyðifirði væru jaðarsport sem eingöngu væri á færi ungra fullhuga. Svo er ekki. Það er ósköp venjulegt fjölskyldufólk sem sækir í þessar ferðir og nýtur aðstoðar þjálfaðra leiðsögumanna. Framtíð ferðaþjónustunnar í landshlutanum virðist björt og hún hefur orðið atvinnulífinu þar og mannlífi öllu mikil lyftistöng.

Fræðandi efni um refinn

Í Eyrardalsbænum á Súðavík er starfrækt Melrakkasetur Íslands. Það er helgað íslenska refnum, eina upprunalega landspendýrinu á Íslandi. Markmiðið er að safna saman á einn stað allri þekkingu, efni og hlutum sem tengjast melrakkanum í fortíð og nútíð. Á sýningunni sem þar er rekin er á boðstólum fræðandi efni í máli og myndum um refi í náttúrunni, hérlendis sem erlendis, refarækt og refaveiðar.
Borea er með starfsstöð í gömlu húsi, Bræðraborg, í miðbæ …
Borea er með starfsstöð í gömlu húsi, Bræðraborg, í miðbæ Ísafjarðar. Þar er boðið upp á veitingar og hægt er að kaupa nestispakka. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Kajaksigling á vegum Borea Adventures við Hornstrandir. Vitinn 2014. Mynd …
Kajaksigling á vegum Borea Adventures við Hornstrandir. Vitinn 2014. Mynd af vefsíðu Borea. mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert