Vefsíða iSímans réð ekki við álagið

AFP

Slík er eftirspurnin eftir nýjasta útspili Apple, iPhone 6, að ný vefsíða iSímans sem sett hafði verið upp til að taka við forpöntunum réð ekki við álagið og lá niðri um nokkurt skeið í gærkvöldi.

„Þjónustan okkar réði við u.þ.b. 300 skráningar á dag og það dugði ekki út daginn,“ segir Tómas Kristjánsson, eigandi iSímans. „Það er kannski bara mjög lýsandi fyrir áhugann á þessum blessaða síma.“

Tómas segir iSímann hafa fengið 1.700 forpantanir þegar iPhone 5 kom. Hann hafði ekki búist við að lenda í vandræðum með forpantanirnar en greinilegt sé á fjölda skráninga að áhuginn á iPhone 6 sé meiri en starfsmenn fyrirtækisins hafi orðið varir við. „Síðan er komin upp núna og ræður við 1.000 skráningar á dag, að dugir vonandi í bili“ segir Tómas.

Bíða í röð í Bretlandi

Tómas segir iSímann ávallt vera fyrsta fyrirtækið á Íslandi til að fá nýju iPhone símanna í hendurnar og segir hann að iPhone 6 verði kominn í búðina á föstudag, sama dag og síminn kemur út. 

„Við erum búnir að tileinka okkur það að fara bara út og sækja þá. Við förum yfirleitt nokkrir saman og bíðum í röðinni fyrir utan Apple búðina í svona tólf tíma. Þá fáum við síma yfirleitt milli klukkan 8 og 9 á morgnanna úti í Bretlandi, fljúgum heim á hádegi og erum komnir með þá í búðina milli 14 og 15,“ segir Tómas.

„Það er alltaf rosaleg stemning í röðinni. Það er alltaf góður mórall og svo kemur Starbucks og skaffar kaffi um nóttina og svona,“ heldur hann áfram. „Þetta er rosalega sérstakt og mikið ævintýri. Maður kemur alltaf heim og segir ég ætla aldrei að gera þetta aftur því það er fátt leiðinlegra en að standa kyrr í tólf tíma en svo gerir maður þetta alltaf aftur. Ætli þetta sé ekki eins og þjóðhátíð, maður fer fyrir stemmninguna bara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert