36 þúsund myndir af nöktum drengjum

Leifsstöð
Leifsstöð Sigurður Bogi Sævarsson

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þess efnis að karlmaður sem stöðvaður var í Leifsstöð með barnaníðsefni sæti áframhaldandi farbanni. Manninum er hið minnsta bönnuð för frá Íslandi til og með 14. október næstkomandi.

Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að hinn 1. ágúst sl. hafi tollgæslan á Keflavíkurflugvelli haft afskipti af manninum við komu hans til landsins. Hafi tollgæsluna grunað að maðurinn hefði í vörslum sínum barnaklám.
Við leit í farangri fundust vísbendingar um slíkt og var lögreglan kölluð til í framhaldinu.

Vegna rannsóknar málsins hafi verið lagt hald á tvær Samsung tölvur og sex minnislykla sem maðurinn hafi haft meðferðis umrætt sinn.

Rannsókn á mununum sem haldlagðir voru sé í fullum gangi. Við skoðun á annarri Samsung tölvunni hafi komið í ljós rúmlega 36.000 ljósmyndir sem sýni unga drengi nakta og á kynferðislegan hátt. Einnig hafi rannsókn leitt í ljós að kærði hafi vistað á tölvum sínum og minnikubbum kvikmyndaskrár sem hafi verið eytt af tölvunum. Telur lögregla að kvikmyndaskrárnar hafi innihaldið kynferðisbrot gegn börnum. Lögregla vinni m.a. að því að endurheimta kvikmyndaskrárnar.

Maðurinn neitar alfarið sök og segir að hann hafi ekki einn haft aðgang að tölvum sínum. Samstarfsmenn hans hafi einnig haft þann aðgang og þeir hafi getað komið barnaníðsefninu fyrir.

Þá segir í greinargerð lögreglustjóra að maðurinn hafi verið dæmdur í Hæstarétti í þriggja ára og sex mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn ungum dreng og sé hann á reynslulausn fyrir kynferðisbrot gegn barni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert