Bætur fyrir einelti á vinnustað

Grindavík
Grindavík mbl.is/Sigurður Bogi

Grindavíkurbæ var í Hæstarétti í dag gert að greiða kennara 200 þúsund krónur vegna eineltis sem hann varð fyrir af hálfu skjólastjóra. Héraðsdómur hafði áður dæmt bæinn til að greiða 400 þúsund krónur en Hæstiréttur taldi að kennarinn bæri sjálfur ábyrgð á helmingi miska síns.

Eftir að kennarinn kvartaði til bæjarins vegna háttsemi skólastjórans voru fengnir til þrír sálfræðingar. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að um einelti væri að ræða. Hæstiréttur var ekki sammála því en sagði til þess að líta að Grindavíkurbær hefði fyrir héraðsdómi fallist á þá staðhæfingu að kennarinn hefði verið lagður í einelti og orðið fyrir miska af þeim sökum.

Talið var að þótt háttsemi skólastjórans í garð kennarans hefði að mestu leyti verið hluti stjórnunarathafna skólastjóra og liður í hagræðingu í rekstri grunnskólans sem fyrirskipuð hefði verið af sveitarstjórn Grindavíkur, væri önnur háttsemi af hálfu skólastjórans svo tengd starfi hans að vinnuveitandinn Grindavíkurbær bæri ábyrgð á henni.

Kennarinn var hins vegar sjálfur talinn bera ábyrgð á helmingi miska síns, þar sem hann viðurkenndi að hafa sjálfur svarað fyrir sig og ekkert veirð að liggja á skoðunum sínum um að hann teldi ráðstafanir skólastjóra ómálefnalegar. „Hann sinnti ekki allskostar þeirri skyldu sem á honum hvíldi samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 91/2008 að gæta kurteisi og lipurðar gagnvart samstarfsfólki, heldur ól, samkvæmt því sem fram er komið í málinu, á flokkadráttum sem risið höfðu. Af þessum sökum verður hann sjálfur að bera ábyrgð á helmingi miska síns.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert