Eineygðum í umferðinni fjölgað

Ártúnsbrekkan.
Ártúnsbrekkan. Júlíus Sigurjónsson

Í nýrri könnun á ljósabúnaði ökutækja í Reykjavík reyndust 7,5% þeirra annaðhvort eineygð eða alveg ljóslaus að framan. Í síðustu könnun sem gerð var í myrkri var hlutfallið 3%. Fylgst var með 3.578 bílum sem áttu leið um Ártúnsbrekkuna að kvöldlagi þegar aðalljósin eiga að vera kveikt.

Það var tryggingafélagið VÍS sem sá um könnunina. „Niðurstöður könnunarinnar sýna svo ekki verður um villst að of margir ökumenn þurfa að bæta ráð sitt og tryggja að ljósin séu í lagi,“ segir í frétt á vef félagsins.

Þá segir að ljósabúnaður bíla sé mikið öryggistæki, sér í lagi þegar farið er að skyggja. Hér á landi sé skylt að vera með lögboðin ljós eða önnur viðurkennd ökuljós kveikt allan daginn og í reglugerð komi jafnframt fram að þegar skuggsýnt er orðið eða skyggni lélegt sé skylt að nota aðalljósin.

„Nýir bílar eru margir hverjir með orkusparandi dagljósabúnað sem er ekki endilega í takt við umferðaröryggi. Aðalljósin eru þá ekki kveikt ef bjart er úti heldur eingöngu stöðuljós að framan og oft engin afturljós. Aftur á móti kviknar á aðal- og afturljósum þegar rökkva tekur. Mikilvægt er að ökumenn viti hvernig ökuljósin virka á bíl sínum og séu meðvitaðir um að bíllinn kunni að vera ljóslaus að aftan og sjáist þá verr en vera skyldi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert