Systkinin hafa nú náð 1001 ári

Efri röð f.v.: Egill, Ólafur, Bárður, Gústaf, Sigríður, Karl, Svanhvít, …
Efri röð f.v.: Egill, Ólafur, Bárður, Gústaf, Sigríður, Karl, Svanhvít, Eyvindur, Þorvaldur og Loftur. Fremri röð f.v.: Guðmundur, Sigþrúður, Guðrún, Ágústa, Halldóra og Þórey Jónasbörn Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Genin eru góð og hafa dugað vel,“ segir Sigþrúður Jónasdóttir sem er yngst sextán barna Jónasar Ólafssonar og Sigríðar Gústafsdóttur frá Kjóastöðum í Biskupstungum.

Í gær, þegar Sigþrúður varð 48 ára, urðu þau tímamót að samanlagður árafjöldi systkinanna náði sléttum 1.000 árum. Raunar stóð metið ekki lengi. Í dag verður Loftur Jónasson, einn Kjóastaðabræðra, 61 árs og þar með er árafjöldinn orðinn 1001 ár.

Haldið heilsu og verið heppin

Nokkrir íslenskir systkinahópar hafa náð svipuðum aldri og Kjóastaðafólkið og jafnvel komist yfir þúsund árin. Eigi að síður eru svona tímamót frekar sjaldgæf. Elst systkinanna úr Biskupstungum er Sigríður, sem fæddist árið 1941 og er orðin 73 ára. Alls eru 25 ár milli elsta og yngsta systkinis.

„Við höfum haldið góðri heilsu og verið heppin í lífinu. Ég hef ekki aðrar skýringar á þessu langlífi,“ segir Sigþrúður, sem er eitt fjögurra systkinanna sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Sjö halda heimili á æskuslóðunum í uppsveitum Árnessýslu en hin annars staðar á landinu.

Hagleiksfólk hittist reglulega

Að sögn Sigþrúðar halda Kjóastaðasystkinin hópinn ágætlega og hittast að jafnaði einu sinni á ári, á fjölsóttum ættarmótum. Alls eru afkomendur Jónasar og Sigríðar, sem bæði eru látin, nú orðnir 161 og þriggja nýrra er vænst síðar á árinu. Eru þá makar og viðhengi í ættinni ekki talin með.

„Þegar þú spyrð hvort við systkinin eigum eitthvað sameiginlegt dettur mér kannski helst í hug glaðværð og vinnusemi. Það er sammerkt með okkur að vera alltaf á fullu. Við systurnar erum svona almennt góðar í höndunum og prjónaskapur og saumar liggja ágætlega fyrir okkur og sömuleiðis eru bræðurnir hagleiksmenn og hafa margir hverjir verið í alls konar verkamannavinnu.“

Nokkrir hópar eldri

Að sögn Jónasar Ragnarssonar, sem heldur úti síðunni Langlífi á Facebook, hafa nokkrir systkinahópar á Íslandi verið nærri Kjóastaðafólkinu í aldri. Í júlí í fyrra var staðan sú að fjórtán systkini frá Austari-Vesturhúsum í Eyjum voru komin í 1001 ár, sem nú eru orðin 1015, og fimmtán systkin úr Jökulsárhlíð komin í 998 ár sem nú eru orðin 1013. Næst koma svo Kjóastaðasystkinin sem eiga væntanlega talsvert mikið eftir enn, enda öll á góðum aldri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert