40 nýir mælar vegna brennisteinsmengunar

Yfirlit yfir SO2 mælistöðvar á Íslandi.
Yfirlit yfir SO2 mælistöðvar á Íslandi.

Umhverfisstofnun og Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra mun auka stórlega vökun á styrk brennisteinsdíoxíðs (SO2) frá eldgosinu í Holuhrauni. 40 mælar og hafa verið keyptir en við kaupin var lögð höfuðáhersla á að kaupa mæla sem auðveldlega mætti koma fyrir á sem flestum stöðum um land allt til að tryggja sem þéttast mælinet á sem stystum tíma.

Unnið hefur verið að því að þétta mælinetið vegna eldgossins í Holuhrauni. Í fréttatilkynningu frá Umhverfisstofnun kemur fram að við hefðbundnar aðstæður hafi SO2 nær eingöngu mælst í  nágrenni stóriðjufyrirtækja.

 „Eftir að eldgosið hófst og mengun frá brennisteinsdíoxíði er orðin raunverulegt vandamál í byggð skapaðist þörf fyrir að þétta mælinetið verulega og gera það hratt,“ segir í fréttatilkynningu Umhverfisstofnunnar.

„Á næstunni verða því alls 20 mælar, sem eru á vegum ýmissa stofnanna og fyrirtækja, með rauntímaupplýsingar um styrk SO2. Við það mætast síðan fljótlega 23 hreyfanlegir mælar sem dreift verður um allt land. Einnig verður Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra með 17 mæla á sínum snærum. Alls verða því 60 mælar í notkun um land allt.“ Mælarnir verða vaktaðir og almenningi gert viðvart, hækki SO2 styrkurinn.

10 mælar eru nú nettengdir og skila upplýsingum í rauntíma en hægt er að fylgjast með þeim hér. Á næstu dögum munu fleiri bætast við þó svo að ekki séu allir mælarnir þess eðlis að hægt sé að streyma gögnum af þeim í rauntíma. Hægt er að sjá lista yfir mælana og staðsetningu þeirra á heimasíðu Umhverfisstofnunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert